Kristrún og Þorgerður Katrín: Úkraína ofar íslenskum hagsmunum

Úkraína og Selenskí forseti eru okkur ofar í huga en íslenskir hagsmunir, eru skilaboð Þorgerðar Katrínar utanríkisráðherra. Kristrún forsætis tekur undir. Íslenskur almenningur hlýtur að spyrja sig hvað fær æðstu ráðamenn Íslands til að lýsa yfir hollustu og trúnaði við forseta í fjarlægu þjóðríki.

Tilefnið liggur fyrir. Forseti Úkraínu var í Bandaríkjunum til að framselja náttúruauðlindir landsins í hendur Bandaríkjanna í skiptum fyrir peninga og vopn. Viðskipti og völd voru á dagskrá. Áður en kom að undirskrift var fundur með fjölmiðlamönnum í Hvíta húsinu. Þar tók Selenskí forseti upp á því að munnhöggvast við Trump og J.D. Vance varaforseta. Forsetarnir kvöddust í styttingi og ekkert varð úr framsali náttúruauðlinda.

Einn harðasti og ákafasti stuðningsmaður Selenskí og Úkraínu í Bandaríkjunum er öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey Graham. Upphaflega gaf Selenskí Graham vilyrðið að láta af hendi úkraínskar náttúruauðlindir í skiptum fyrir peninga og vopn. Vilyrðið gaf Selenskí í ágúst í fyrra, þrem mánuðum áður en Trump var kjörinn forseti. Viðskipti og völd.

Graham er miður sín hvernig Selenskí hagaði sér í Hvíta húsinu og efast um að hægt sé að endurvinna glatað traust.

Uppákoman í Hvíta húsinu er áhugaverð fyrir þær sakir að Trump vill semja frið við Rússa en Selenski ekki. Líkt og Úkraínuforseti vill Evrópusambandið að blóðsúthellingar haldi áfram. Úkraína og ESB vilja stríða en geta ekki haldið áfram án stuðnings Bandaríkjanna. Trump á hinn bóginn lofaði bandarískum kjósendum að binda endi á hildarleikinn. Þar stendur hnífurinn í kúnni.

Framsal á náttúruauðlindum Úkraínu til Bandaríkjanna átti að liðka fyrir framhaldi á flæði peninga og vopna til Kænugarðsstjórnarinnar. Eftir misheppnaðan fund í Hvíta húsinu eru þær áætlanir allar í uppnámi. 

Hvers vegna gerast Kristrún og Þorgerður Katrín gelgjulegar klappstýrur Selenskí eftir að hann klúðraði viðskiptatækifæri í Hvíta húsinu?

Þorgerður Katrín tekur málið persónulega og ræðst að Bandaríkjaforseta, sakar Trump um að hafa ,,einsett sér að niðurlægja Selenskí." Beina útsendingin frá Hvíta húsinu sýndi Úkraínuforseti einfæran að niðurlægja sjálfan sig, þurfti enga aðstoð. Blaðamaður Telegraph bendir á punktinn þegar fundurinn, sem byrjaði vel, fór norður og niður. Selsnskí sagði að ekki væri hægt að semja við Rússa, eina leiðin væri að stríða áfram. Maður þarf ekki annað en að fylgjast með fréttum til að skilja að Trump er búinn að taka ákvörðun um að hægt sé að semja við Rússa. Selenskí taldi sig vita betur. Dvergur í hermannaklæðum segir ekki stórveldi fyrir verkum í beinni útsendingu.

Nú kann að vera að þær stöllur, forsætis og utanríkis, hafi persónulegar ástæður fyrir að dýrka og dá Selenskí, upphefja málstað Úkraínu og séu fremur elskar að stríði en friði. Krissa og Tobba Kata eru aftur kjörnar á alþingi og fá aðgang að stjórnarráðinu til að vinna í þágu íslenskra hagsmuna en ekki erlendra.

Blóðþyrstir í Brussel og Kænugarði stunda stríð á eigin forsendum. Deilan við Rússa byrjar 2008, já, fyrir 17 árum. Úkraínu var boðin Nató-aðild. Rússar sögðu öryggishagsmunum sínum ógnað. Stjórnarbylting að vestrænu undirlagi 2014 leiddi til Krímtöku Rússa. Minsk-samkomulag frá 2015 var ekki efnt. Innrásin 2022 er afleiðing ekki orsök. Úkraína er búin að tapa stríðinu. Aðeins útfærslan á tapinu er eftir. 

Íslenskar forsendur eru þær að við eigum ekkert sameiginlegt með ESB-Evrópu og Úkraínu. Staða okkar á Norður-Atlantshafi skilgreinir þarfir okkar í varnar- og öryggismálum og þær eru allt aðrar en þjóðríkja á fastalandi Evrópu. Kristrún og Þorgerður Katrín eru annarrar sannfæringar. Þær hafa rangt fyrir sér.


mbl.is Eins og Trump hafi einsett sér að niðurlægja Selenskí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. mars 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband