Gasa, fasteign án eiganda

Hamas hryðjuverkasamtökin stjórnuðu Gasa og sendu þaðan sveitir til fjöldamorða í Ísrael 7. október 2023. Eftir innrás Ísraela er stríðsástand á Gasa. Að stríði loknu eru tveir möguleikar. Í fyrsta lagi að Hamas fá á ný völdin í Gasa eða svæðið yrði hernumið af Ísrael líkt og fram að 2005.

Hvorugur kosturinn er góður. Hamas eru hryðjuverkasamtök og hernám Ísraela endurtekning á fyrri stefnu, sem ekki skilaði árangri.

Efnislega er tillaga Donald Trump að líta skuli á Gasa sem fasteign án lögmæts eignarhalds. Gerum Gasa að bandarísku landi og aukum verðmæti fasteignarinnar, er pælingin.

Þegar Ísrael yfirgaf Gasa, árið 2005, voru íbúarnir 1 milljón. Á 20 árum tvöfaldaðist íbúafjöldinn, sem sýnir að landið er gott til ábúðar. (Tvöföldun íbúafjölda gerir einnig grín að ásökunum um þjóðarmorð Ísraela.) Meirihluti íbúanna, um 1,6 milljónir, er skilgreindur sem flóttamenn. Þjóðfélagsstaða flóttamannsins gengur í arf meðal Palestínuaraba, þekkist hvergi á öðru byggðu bóli. Gasa, í augum þorra araba, er aðeins stökkpallur til að eyða Ísraelsríki.

Tillaga Trump gerir ráð fyrir að Gasa verði skilgreint hamfarasvæði og íbúum fundinn annar samastaður í sama menningarheimi, þ.e. meðal múslímskra nágrannaríkja. Ekki alveg eins og Grindvíkingar sem núna búa í Vogunum, en hugsunin er skyld.

Arabar hafa litið svo á að Gasa sé óskipt sameign múslíma. Arabar, í merkingunni þorri arabískra stjórnvalda, líta sömu augum á Ísrael og vilja afmá gyðingaríkið af landakortinu. Aröbum er þjóðríkið framandi hugmynd, trúarríkið er þeim nærtækari. Í bandalagi við vestræna vinstrimenn, sömu sannfæringar og austurríski liðþjálfinn með frímerkjaskeggið, tókst aröbum að nota þjóðríkishugmyndina í þágu múslímskrar trúarmenningar.

Ein vestræn regla, eldri og viðurkenndari en þjóðríkjareglan, er að ríki sem hefja stríð og tapa fyrirgera landi. Þjóðverjar töpuðu tveim stórstríðum á síðustu öld og töpuðu landi í bæði skiptin. Úkraína er um það bil að tapa stríði á skrifandi stundu og mun missa land til Rússlands í kjölfarið - ef ekki allt ríkið. Hamas tapaði stríðinu við Ísrael og rökrétt að gjalda það dýru verði.

Tillaga Trump, að gera Gasa að bandarískri fasteign, setur vitanlega allt á annan endann í múslímaheiminum. En arabar brjáluðust líka þegar Trump, á fyrri forsetavakt, viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels.

Bandaríkin hafa hernaðarlegt og efnahagslegt vald til að rýma Gasa og koma íbúum í nærliggjandi arabaríki. Enn er opin spurning hvort Trump beitir þessu valdi, útspilið er kannski samningatækni. Gangi fram stöðutaka Bandaríkjanna á Gasa verða umskipti fyrir botni Miðjarðarhafs. Helsta vörn Gasa-fasteignarinnar er sterkt Ísraelsríki. Þegar arabaheimurinn horfir fram á bandarískt Gasa er kannski að vænta meiri lipurðar í afstöðunni til tilvistar Ísraelsríkis.

 


mbl.is Trump vill að Ísraelar afhendi Bandaríkjunum Gasa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband