Byrlunar- og símamálið til alþingis

Eva Hauksdóttir lögmaður Páls skipstjóra Steingrímssonar hefur sent erindi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis. Í bráðum fjögur ár hefur Páll skipstjóri barist fyrir rétti sínum til að fá upplýsingar um lífshættulega atlögu blaðamanna og fjölmiðla að heilsu sinni og friðhelgi einkalífs. Miðstöð aðgerða gegn skipstjóranum var á höfuðstöðvum ríkisfjölmiðilsins, RÚV, á Efstaleiti.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur ekki gert grein fyrir aðkomu RÚV að atlögunni gegn Páli skipstjóra. Stefán hefur aftur losað sig við fólk sem tengist málinu, t.d. Rakel Þorbergsdóttur fréttastjóra, Helga Seljan fréttamann og Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks.

Páli skipstjóra var byrlað að kvöldi 3. maí 2021 á heimili sínu á Akureyri. Nóttina eftir var hann nær dauða en lífi á sjúkrahúsinu á Akureyri. Ítrekaðar lífgunartilraunir þurfti til að skipstjórinn gæfi ekki upp öndina. Um hádegisbil 4. maí var skipstjórinn fluttur með sjúkravél að norðan á gjörgæslu Landsspítalans í Fossvogi.

Þáverandi eiginkona skipstjórans er mikið andlega veikur einstaklingur. Hún hefur játað að byrla eiginmanni sínum. Jafnframt hefur konan játað að hafa tekið síma eiginmannsins traustataki og afhent Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks símann þann 4. maí 2021. Á Efstaleiti var síminn í sólarhring þar sem hann var afritaður. Eiginkonan fékk afhentan símann daginn eftir, 5. maí og kom tækinu fyrir í föggur skipstjórans sem var meðvitundarlaus 4. til 6. maí. Skipulagið gerði ráð fyrir að skipstjórinn yrði ekki var við að sími hans hefði verið afritaður á meðan hann lá fársjúkur og meðvitundarlaus á spítala.

Undirbúningur var á RÚV fyrir móttöku síma skipstjórans. Til reiðu var samskonar sími og skipstjórinn notaði, af gerðinni Samsung. Sími skipstjórans var með númerið 680 2141 en afritunarsíminn á RÚV hafði númerið 680 2140. Aðeins skeikaði síðasta tölustaf í símnúmerunum. 

Afritunarsíminn, með númerið 680 2140, þjónaði þríþættu hlutverki. Í fyrsta lagi geymdi hann öll gögn skipstjórans, s.s. samtöl á spjallrás, myndefni, dagbók, símaskrá, aðgang að heimabanka og samfélagsmiðlum. Í öðru lagi var síminn notaður til samskipta við andlega veika eiginkonu skipstjórans, það sýna lögregluskýrslur. Í þriðja lagi var síminn notaður til að komast inn á einkareikninga skipstjórans, bæði banka og samfélagsmiðla. Þær upplýsingar liggja fyrir þar sem skipstjórinn fékk aðvörun í síma sinn um að utanaðkomandi reyndi að komast inn á téða reikninga. Allt sumarið 2021 fékk skipstjórinn skilaboð um að reynt væri að komast inn á reikningana með utanaðkomandi tæki - afritunarsímanum á RÚV.

Tilgangur RÚV með afritun var að komast yfir upplýsingar um persónulega hagi skipstjórans sem hafði með greinarskrifum varið atvinnuveitanda sinn, Samherja, fyrir fjölmiðlaherferð sem hófst á RÚV í nóvember 2019 með Kveiksþætti um Namibíumálið svokallaða. Um er að ræða ásakanir um að Samherji hafði stundað mútur í Afríkuríkinu, keypt fiskveiðiheimildir með ólögmætum greiðslum. Þrátt fyrir bráðum sex ára rannsókn á Íslandi og í Namibíu finnst hvergi arða af sönnunargögnum sem staðfesta ásakanir RÚV og samstarfsmiðla, sem voru Stundin og Kjarninn - RSK-miðlar.

Samstarf miðlanna þriggja er hvergi skráð og hefur aldrei verið gert opinbert. Allt samstarfið er á bakvið tjöldin, enda í eiga í hlut ríkisfjölmiðill annars vegar og hins vegar einkafjölmiðlar í eigu auðmanna og sérvaldra blaðamanna.

RÚV frumbirti enga frétt með vísun i gögn úr síma skipstjórans vorið 2021. Það gerðu aftur samstarfsmiðlarnir, Stundin og Kjarninn. Þeir birtu morguninn 21. maí sömu fréttina í tveim útgáfum um meinta skæruliðadeild Samherja, sem Páll skipstjóri átti að hafa stýrt.

Meginásökunin í frétt Stundarinnar og Kjarnans var að skipstjórinn hefði staðið á bakvið ,,ófrægingarherferð" gegn blaðamönnum og fjölmiðlum. Til að ,,afhjúpa" skrif Páls skipstjóra nýttu blaðamenn sér byrlun, stuld og stórfellt brot friðhelgi á einkalífs. Það þarf ekki að ófrægja slíka blaðamenn, þeir sjá um það sjálfir.

Skráður höfundur fréttarinnar á Stundinni er Aðalsteinn Kjartansson. Hann skipti um starf í hádeginu föstudaginn 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun skipstjórans. Skráðir höfundar fréttarinnar í Kjarnanum eru Þórður Snær Júlíusson og Arnar Þór Ingólfsson. Báðir hafa hrakist úr blaðamennsku og eru núna starfsmenn þingflokks Samfylkingar, Þórður Snær raunar framkvæmdastjóri þingflokksins. Samfylkingin ber pólitíska og siðferðilega ábyrgð á þessum mönnum.

Undanfarið hefur Morgunblaðið fjallað skipulega um byrlunar- og símamálið. Mörgum spurningum er ósvarað um hlutdeild RÚV í málinu og hvaða afstöðu stjórnendur þar á bæ hafa á tilefnislausri atlögu að fjölskyldu Páls skipstjóra, heilsu hans og friðhelgi einkalífs. Yfirstjórn RÚV hefur neitað Morgunblaðinu um svör. Fáheyrt er, ef ekki einsdæmi, að ríkisfjölmiðillinn neiti að svara eðlilegum spurningum blaðamanna í jafn alvarlegu máli.

Árlega fær RÚV um sex milljarða króna á fjárlögum sem alþingi samþykkir. Stjórnskipun- og eftirlitsnefnd þingsins hlýtur að taka vel i sanngjarna ósk Páls skipstjóra Steingrímssonar að aðild RÚV að byrlunar- og símamálinu verði upplýst. 


mbl.is Tímalínan: Atburðarásin í Efstaleiti og víðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband