Stefán fór á bakvið stjórn RÚV, upplýsti ekki um Þóru

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri leyndi stjórn RÚV að hann hefði átt í samskiptum við lögreglu í byrjun janúar 2023 um málefni Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks. Hann reyndi einnig, með lögfræðiáliti, að koma sér undan því að veita lögreglu upplýsingar. Samskiptin við lögreglu leiddu til að Þóra var látin fara frá RÚV. 

Stefán fékk upplýsingabeiðni frá lögreglu 4. janúar 2023 um símanúmerið 680 2140. Það er númerið á Samsung símanum sem notaður var til að afrita síma Páls skipstjóra Steingrímssonar. Símann hafði Þóra Arnórsdóttir keypt í apríl 2021, rétt áður en skipstjóranum var byrlað og síma hans stolið. Stefán svaraði með tölvupósti 11. janúar eftir að lögreglan ítrekaði upplýsingabeiðnina. Stefán fékk aðstoð lögfræðings og komst að þeirri niðurstöðu að upplýsingar yrðu ekki veittar. Niðurlag tölvupósts útvarpsstjóra er afgerandi neitun að veita lögreglu upplýsingar: ,,Þegar af þessum ástæðum er ekki unnt að fallast á upplýsingabeiðnina, enda uppfyllir hún að okkar mati ekki lagaskilyrði."

Daginn eftir hafði Stefáni snúist hugur. Óvíst er hvað olli sinnaskiptum útvarpsstjóra sem bæði er lögfræðimenntaður og fyrrverandi lögreglustjóri. Kannski hefur Stefán notað tengsl sín í kerfinu, spurst fyrir á bakvið tjöldin og áttað sig á að honum væri ekki stætt á að neita upplýsingagjöf í rannsókn lögreglu á sakamáli. Ellegar væri hætta á að hann yrði sjálfur kallaður til yfirheyrslu, annað tveggja sem sakborningur eða vitni.

Í tölvupósti 12. janúar 2023 sagði hann símann notaðan af Kveik og að Þóra Arnórsdóttir gæfi upplýsingar ,,munnlega" um notkun símans. Stefán ákveður, ef til vill í samráði við Þóru, að ekkert skuli fréttast af málinu innan veggja RÚV. Hann ákveður jafnframt að halda leyndu fyrir stjórn RÚV að Þóra sé undir lögreglurannsókn fyrir að hafa tekið við stolnum síma, sem fékkst með byrlun.

Næsti stjórnarfundur RÚV eftir samskipti útvarpsstjóra og lögreglu var 25. janúar 2023. Á stjórnarfundum leggur útvarpsstjóri fram minnisblað og fer yfir helstu viðfangsefni stofnunarinnar frá síðasta fundi. Fundir eru að jafnaði mánaðarlega. Þann 25. janúar sagði hann m.a. frá dómsmálum sem RÚV á aðild að en ekki orð um að starfsmaður RÚV sé undir lögreglurannsókn fyrir alvarleg afbrot. Ekkert er sagt um upplýsingabeiðni lögreglu sem eindregið bendir til að stjórnandi á RÚV sé beinn aðili að byrlunar- og símamálinu. Stefán hafði þegar grafið sér djúpa holu. Ári áður, í febrúar 2022, hafði hann, ásamt Heiðari Erni fréttastjóra, gefið út sérstaka traustsyfirlýsingu til Þóru. Það hefði verið vandræðalegt fyrir útvarpsstjóra að útskýra fyrir stjórn RÚV og öðrum að hann gerði mistök með traustsyfirlýsingunni árið áður. Útvarpsstjóri kaus að ljúga með þögninni.

Stefáni ber skylda til að upplýsa stjórn RÚV um formleg samskipti við aðrar ríkisstofnanir, einkum og sérstaklega þegar um er að ræða sakamálarannsókn á yfirmönnum RÚV. Án þessara upplýsinga getur stjórn RÚV ekki sinnt lögboðnu eftirlitshlutverki sínu.

Stefán losaði sig við Þóru í byrjun febrúar 2023, stuttu eftir að upp komst að hún hafði keypt Samsung síma til að afrita síma Páls skipstjóra. Snubbótt fréttatilkynning var gefin út 6. febrúar. Þóra hafði verið 25 ár á stofnunni og ritstjóri Kveiks frá upphafi. Ef allt væri með felldu hefðu tímamótin verið nýtt til að fara yfir afrekaskrá Þóru og Kveiks. Fáorð fréttatilkynning var látin nægja. Það mátti ekki vekja athygli á skyndilegu brotthvarfi ritstjóra Kveiks. Fólk gæti farið að spyrja og krefjast skýringa.

Á næsta fundi stjórnar RÚV, þann 22. febrúar 2023, leggur Stefán fram minnisblað, samkvæmt venju. Ekki orð um Þóru. En útvarpsstjóri tekur fram að Þröstur Helgason hætti sem dagskrárstjóri Rásar 1 komandi mánaðarmót. Í starfsaldri er Þröstur ekki hálfdrættingur Þóru. Starfsmannamál millistjórnenda eru sem sagt á dagskrá, en ekki þegar Þóra á í hlut. Það mátti ekki ræða skyndileg starfslok Þóru, þá hefði þurft að ræða sakamálið. Útvarpsstjóri ætlaði að þegja sig og RÚV frá byrlunar- og símamálinu. 

RÚV er opinber stofnun. Stefáni ber skylda að upplýsa stjórnina um mikilsverð málefni. Að millistjórnandi sé undir lögreglurannsókn vegna alvarlegs sakamáls er augljóslega eitthvað sem Stefán á að greina stjórninni frá. Upplýsingabeiðni frá lögreglu sem leiðir til þess að stjórnandinn lætur af störfum fyrirvaralaust staðfestir að mikilsvert málefni er á ferðinni.

Stefán brást skyldum sínum sem útvarpsstjóri. Með þögninni laug Stefán útvarpsstjóri kalt og yfirvegað að stjórn RÚV. Í öllum stjórnum stofnana og fyrirtækja hefur slík framkoma forstjóra afleiðingar.


mbl.is Hringurinn þrengist um Efstaleiti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband