Mánudagur, 17. febrúar 2025
Byrlunarmálið lesið afturábak
Fyrsta opinberun byrlunar- og símamálsins er morguninn 21. maí 2021. Stundin og Kjarninn birtu samtímis efnislega sömu fréttina um meinta ófrægingarherferð tveggja starfsmanna Samherja á hendur blaðamönnum og fjölmiðlum. Fréttirnar eru keimlíkar, sjá hér og hér, og vísa í sömu gögn, fengin úr síma Páls skipstjóra Steingrímssonar.
Þennan morgun, 21. maí 2021, var enginn annar fjölmiðill með þessa frétt, aðeins Stundin og Kjarninn. Hvernig geta tveir ótengdir fjölmiðlar setið einir að sömu fréttinni? Svarið er einboðið. Þriðji aðili skipulagði birtingu fréttanna. Í frétt Kjarnans er viðurkennt að þriðji aðili útvegaði fréttina og að lögbrot hafi verið undanfari:
Ábyrgðarmenn Kjarnans vilja taka fram að umrædd gögn sem eru grundvöllur umfjöllunar miðilsins bárust frá þriðja aðila. Starfsfólk Kjarnans hefur engin lögbrot framið...
Í viðtengdri frétt Morgunblaðsins segir að skipulagið hafi verið svo nákvæmt að daginn fyrir birtingu hringdu blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans í Pál skipstjóra um sama leyti:
Símtölin voru með tíu mínútna millibili og eftir þau skundaði Páll rakleitt á lögreglustöð og gaf nýja skýrslu í málinu.
Blaðamennirnir sem hringdu í skipstjórann voru Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni og Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum. Símtölin voru aðeins til að uppfylla formskilyrði, tala við skipstjórann sem blaðamenn ásökuðu um að vera foringja skæruliðadeildar Samherja.
Hver útvegaði Aðalsteini annars vegar og hins vegar Þórði Snæ fréttina? Þáverandi eiginkona skipstjórans er andlega veik. Hún hefur játað að hafa farið með síma skipstjórans þann 4. maí 2021 og afhent símann Þóru Arnórsdóttur ritstjóra Kveiks til afritunar á Efstaleiti. Eftir afritun var síma skipstjórans skilað á sjúkrabeð hans.
Þóra vissi fyrirfram að sími skipstjórans var væntanlegur. Fyrir byrlun og stuld hafði Þóra keypt síma samskonar og skipstjórans, af gerðinni Samsung. Hvernig vissi Þóra að Páll skipstjóri notaði Samsung-síma? Nú, vitanlega, Þóra var í samskiptum við eiginkonu skipstjórans áður en byrlun og stuldur fóru fram þann 3. maí 2021.
Þegar Þóra keypti Samsung-símann var Aðalsteinn Kjartansson undirmaður hennar á Kveik. En 30. apríl 2021, þrem dögum fyrir byrlun, tilkynnti Aðalsteinn á Facebook að hann væri hættur á Kveik. Ekki þó hættur í ,,rannsóknablaðamennsku". Eftir hádegi var tilkynnt að Aðalsteinn væri orðinn blaðamaður á Stundinni, sem systir hans Ingibjörg Dögg ritstýrði.
Blaðamenn skipta ekki um starf í hádeginu, þannig gerast hlutirnir ekki hjá fjölmiðlum og yfirleitt ekki á vinnumarkaði. En það bráðlá á að Aðalsteinn færi af Kveik/RÚV yfir á Stundina rétt áður en Páli skipstjóra var byrlað og síma hans stolið. Búið var að ákveða að Aðalsteinn yrði skráður höfundur fréttarinnar í Stundinni. Þórður Snær og Arnar Þór Ingólfsson voru skráðir höfundar þeirrar útgáfu fréttarinnar sem birtist í Kjarnanum. Allir þrír fengu blaðamannaverðlaun fyrir að taka við frétt frá RÚV og birta sem sína eigin.
Málsatvik rekin afturábak frá 21. maí 2021, þegar fyrstu fréttir birtust með vísun í gögn úr síma skipstjórans, sýna að atburðarásin var skipulögð. Áður en skipstjóranum var byrlað 3. maí voru komin á samskipti milli byrlara og blaðamanna. Miðstöð aðgerða var á RÚV. Hvorki blaðamenn né yfirstjórn RÚV hafa gert grein fyrir aðild sinni að byrlunar- og símamálinu. Er ekki kominn tími til að málið verði upplýst? Hér er í húfi traust og trúverðugleiki blaðamannastéttarinnar annars vegar og hins vegar ríkisfjölmiðilsins.
![]() |
Játaði byrlun og aðkomu fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)