Rætin ríkisstjórn

Piltur og stúlka, Kristrún forsætis og Jóhann Páll loftslags, lögðu gildru fyrir þingheim í fyrradag. Stefnuræða Kristrúnar er samkvæmt þingsköpum dreift til þingheims tveim dögum fyrir flutning. Ræðan geymdi enga vísun í yfirstandandi kennaraverfall. Sigurður Ingi formaður Framsóknar gekk í gildruna, lagði út af þögninni um kennaraverkfallið.

Þú lýgur blákalt, sagði sigri hrósandi Jóhann Páll úr ræðustól alþingis. Sigurður Ingi gerði ekki annað en vísa í skrifaða ræðu forsætisráðherra - en Kristrún breytti ræðunni í flutningi. Gálur og pörupiltar haga sér svona, ekki ráðherrar. Sigurður Ingi, eðlilega, fer fram á að Loftslags-Jóhann biðjist afsökunar.

Fyrir viku bloggaði tilfallandi að ráðherrar temdu sér ógnarorðræðu til að fela spillingu í eigin ranni. Ekki sjá æðstu ráðamenn að sér heldur tvíeflast og temja sér rætni.

Ógnarorðræða og rætnin sýna ekki styrk heldur veikleika. Ráðherrar kunna lítt til verka, eru nýgræðingar í stjórnarráðinu, og eru óvissir um erindi sitt. Þingkosningarnar í lok nóvember gáfu engu stjórnmálaafli sterkt umboð.

Á alþingi eru fimm miðlungsflokkar, með fylgi á bilinu 12-20 prósent, og einn smáflokkur, Framsókn, með tæp 8 prósent. Þrír miðlungsflokkar, Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins, náðu saman um meirihluta. Umboðið sem flokkarnir fengu frá kjósendum er að halda í horfinu, lagfæra hér og þar, en fyrst og fremst að skaffa pólitískan, efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Illa gáttaðir ráðherrar, til dæmis Loftslags-Jóhann og Inga skólastjórahrellir, ímynda sér að eftirspurn sé eftir uppákomum og róttækni. Halló Hafnarfjörður, þjóðin kaus af þingi Pírata og Vinstri græna og afþakkaði framlag sósíalista.

Vinsamleg túlkun á ógnarorðræðu og rætni ráðherra er að þeir séu of taugaveiklaðir til að sýna mannasiði. Mannaforráð eru þeim framandi, lágt sjálfsmat er falið með hroka. Gyrði ráðherrar sig ekki í brók og nælonbuxur með hraði er hætt við að stjórnarsetan verði skammvinn. 


mbl.is Almennt ætti ekki að tjá sig á þessum nótum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. febrúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband