Kristrún setur ofan í við Þorgerði Katrínu

Kristrún forsætis segir undir rós að Þorgerður Katrín utanríkis ætti að ná stjórn á sér og láta ekki eins og himinn og jörð séu að farast þótt gári í heimspólitíkinni. ,,Mikilvægt að við höldum ró okkar," segir Kristrún.

Þorgerður Katrín missteig sig illilega þegar hún fyrir rúmri viku sagði bráðnauðsynlegt að kalla saman þjóðaröryggisráðið vegna dróna yfir Kastrup-flugvelli í Danmörku. En nauðsynin var þó ekki meiri svo að það mætti bíða heimkomu hennar eftir veisluhöld í New York. Þing og þjóð spurðu forviða hvort þjóðaröryggið færi eftir hvernig stæði með kokteilboð utanríkisráðherra.

Þorgerður Katrín á að heita reyndur stjórnmálamaður en gerir hvert axarskaftið á fætur öðru. Í mars gagnrýndi hún Bandaríkin fyrir áhuga á Grænlandi og tók afstöðu með nýlenduveldi Dana. Afstaða utanríkisráðherra leiddi til þess að Ísland var sett í skammarkrókinn í samningaviðræðum um tollamál.

Utanríkisráherra böðlast áfram með þá stefnu að Ísland verði ESB-ríki án þess að hafa til þess umboð frá kjósendum. Hingað til hefur Samfylkingin látið sér það vel líka. Stefna Viðreisnar, þar sem Þorgerður Katrín er formaður, setur í uppnám varnarsamninginn við Bandaríkin frá 1951, sem hefur verið hornsteinn öryggis- og varnarmálastefnu landsins frá miðri síðustu öld. Í sumar kom forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Úrsúla von der Leyen, í heimsókn til Íslands og gaf tóninn um nýjar Viðreisnaráherslur í öryggis og varnarmálum Íslendinga:

Ísland fer með lykilhlutverk í viðbúnaði Nató á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi. Ísland er sterkur og áreiðanlegur bandamaður. [...] Ég er ánægð með að viðræður eru hafnar um aðild Ísland að öryggis- og varnarsamvinnu ESB. Ég er viss um að viðræðum verði lokið innan fárra vikna eða mánaða. Þær munu skila Íslandi inn í öryggis- og varnarsamstarf Evrópusambandsins.

Bandaríkin eiga ekki aðild að öryggis og varnarsamvinnu Evrópusambandsins. Samvinnan er alfarið á forræði Evrópusambandsins og er viðbragð við minnkandi umsvifum Bandaríkjahers á meginlandi Evrópu. Með því að véla Ísland inn í öryggis- og varnarstefnu Evrópusambandsins veikist samstarfið við Bandaríkin. Með framgöngu sinni grefur Þorgerður Katrín undan varnarsáttmála Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 eins og tifallandi útskýrði.

Kristrún forsætis er langþreytt á einleik Þorgerðar Katrínar í utanríkismálum. Menn þurfa að nálgast stóru málin án hamagangs og umfram allt edrú. 

 


mbl.is „Mikilvægt að við höldum ró okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. október 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband