Liðhlaup og Trump-ótti í Úkraínu

Úrvalssveit Úkraínuhers, þjálfuð og vopnuð í Frakklandi, 155. vélaherdeildin, er óstarfhæf þar sem um helmingur af 3500 manna herdeild létu sig hverfa, eru liðhlaupar. Stríðsbloggarar hlynntir málstað Úkraínu segja þær fréttir að liðhlaupið hófst á meðan 155. vélaherdeildin var í þjálfunarbúðum í Frakkland síðsumars og fram á haust. 

Eftir að herdeildin var flutt nær víglínunni jókst liðhlaupið. Frakkar útveguðu búnað og vopn, m.a. Leopard skriðdreka, fyrir 900 milljónir evra, sem gerði herdeildina betur útbúna enn þorra hersveita Úkraínuhers. 

Meginstraumsmiðlar, t.d. Die Welt, segja frá afdrifum 155. vélaherdeildarinnar sem var leyst upp eftir að hún varð óbardagahæf sökum liðhlaups. Hersveitin bar virðulegt nafn franskrar drottningar sem ættuð var frá Úkraínu, Anna frá Kænugarði. Í frásögn fréttamanns Die Welt í Kænugarði kemur fram að úkraínsk yfirvöld viðurkenna að að liðhlaup sé vaxandi vandamál. Yfirvöld segja um 100 þúsund karlmenn á herskyldualdri hafi gerst liðhlaupar. Líklega er það vantalið.

Die Welt fylgdi eftir fréttinni með frásögn af harkalegum aðgerðum úkraínsku herlögreglunnar sem eltir uppi þá sem koma sér undan herkvaðningu. Karlmenn á herskyldualdri eru handsamaðir hvar sem til þeirra næst, hvort heldur á heimilum, opinberum stöðum eða á götum úti. Die Welt segir dæmi af misþyrmingum og dauðsföllum af völdum herlögreglu að þvinga menn í herinn.

Herskyldualdurinn í Úkraínu er 25 ár. Vestræn stuðningsríki stjórnarinnar í Kænugarði hafa þrýst á að lækka herskylduna um sjö ár og gera öllum körlum frá og með 18 ára aldri skylt að gegna herþjónustu. Bakhjarlar Úkraínu telja mannfæð standa hernum fyrir þrifum. Selenskí forseti hefur hingað til ekki fallist á að lækka herskyldualdur af ótta við viðbrögð almennings. Víst er að liðhlaup myndu stóraukast og voru þau ærin fyrir.

Nær allt síðasta ár gekk allt á afturfótunum fyrir Úkraínuher. Ljósi punkturinn er árangursrík innrás í rússneska héraðið Kúrsk í ágúst. Að öðru leyti er fátt um fína drætti. Verulega þrengir að Úkraínumönnum í Kúrsk í desember og hægfara undanhald er á öðrum vígstöðum.

Eftir tvær vikur sver Donald Trump embættiseið sem Bandaríkjaforseti. Hann hefur ekki hvikað frá þeirri skoðun sinni í kosningabaráttunni að Úkraínustríðið verði af stöðva. Breska útgáfan Telegraph segir í gærkvöldi frá hugmynd, sem áður hefur verið kynnt, að frysta víglínuna eins og hún er núna og nota vopnahléið til að semja frið. Haft er eftir fyrrum utanríkisráðherra Breta, Jeremy Hunt, að Bretland, Þýskaland og Frakkland verði að vera tilbúin að senda hersveitir til Úkraínu og tryggja að vopnahlé sé virt - verði af því. Engar líkur séu á að Trump forseti samþykki að senda bandarískt herlið til Úkraínu. Þjóðverjar og Frakkar verða tregir til, sitji Bandaríkjamenn hjá. Þýski herinn var síðast í Úkraínu í seinna stríði og það eitt vekur hugrenningar sem fáum er að skapi.

Svo er hitt, að ekkert vopnahlé verður á dagskrá nema báðir stríðsaðilar samþykki. Stjórnin í Kænugarði mun sjá sig knúna að fara eftir vilja Trump. Pútín og félagar í Moskvu hafa gefið út að ekkert vopnahlé komi til greina nema fallist sé fyrirfram á að Úkraína verði ekki Nató-ríki og enginn erlendur her sitji landið. Rússar hafa lagt undir sig um fimmtung Úkraínu og vígstaða þeirra fer batnandi með hverjum deginum sem líður. Tíminn vinnur með Rússum.

Atburðarásin næstu vikur gæti orðið hröð, standi vilji Trump til að stríðsátök stöðvist sem fyrst. Eftir embættistöku er Úkraínustríðið orðið hans vandamál, því meira sem lengur dregst að stöðva stríðsátökin. Dramatískir atburðir, á vettvangi stjórnmála sem og á vígvellinum, virðast í vændum.  

 

 

 


Bloggfærslur 4. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband