Byrlunar- og símamálið: blaðamenn láta veika konu eina um sök

Rannsókn lögreglunnar á byrlunar- og símamálinu var réttmæt, kemur fram í 12 síðna greinargerð ríkissaksóknara sem í gær staðfesti að rannsókn lögreglu á hlut blaðamanna skuli hætt. Málsaðild andlegrar veikrar konu, fyrrum eiginkonu Páls skipstjóra Steingrímssonar, skal áfram rannsökuð. Lögreglan hætti rannsókn í september s.l. með sérstakri yfirlýsingu um að ekki hefði tekist að sanna óyggjandi glæpi blaðamanna enda hafði gögnum ,,verið eytt." 

Sex blaðamenn á RÚV, Stundinni og Kjarnanum höfðu stöðu sakborninga í byrlunar- og símamálinu sem hófst með byrlun Páls skipstjóra 3. maí 2021. Þáverandi eiginkona skipstjórans byrlaði og stal síma hans og færði blaðamönnum til afritunar. Síminn var afritaður á RÚV, sem birti engar fréttir. Aftur birtust samræmdar fréttir, með vísun í gögn úr síma skipstjórans, í Stundinni og Kjarnanum samtímis morguninn 21. maí 2021. Fyrirsagnir og efni fréttanna voru efnislega samhljóða. Skálduð deild norðlenskrar útgerðar fæddist á Efstaleiti en kynnt til sögunnar í Stundinni og Kjarnanum: Skæruliðadeild Samherja.

Í greinargerð ríkissaksóknara kemur fram að blaðamennirnir hafi verið ósamvinnuþýðir og neitað að tjá sig um málsatvik. Það sé þeirra réttur sem sakborninga. Á meðan blaðamenn hafa sín á milli þagnarbandalag telur ríkissaksóknari ekki ástæðu til að halda áfram rannsókninni. Ein röksemd ríkissaksóknara er eftirfarandi:

starfsmönnum fjölmiðlaveitu sé óheimilt að upplýsa um það hver sé heimildarmaður að efni hafi þeir óskað nafnleyndar. (undirstrikun pv)

Veika konan hefur ekki óskað nafnleyndar. Þvert á móti hefur hún, í samskiptum við blaðamenn, lagt til að hún stígi sjálf fram á sjónarsviðið og upplýsi málið. Í tölvupósti 20. október 2021 skrifar veika konan til eins sakborninganna, Þóru Arnórsdóttur:

Sæl Þóra, mér sýnist Helga ekki veita af aðstoð. Er ekki bara kominn til að ég afhjúpi mig. Ég hef hvort eð er ekki neitt að missa. Kveðja XXX (nafn fellt út af pv)

Í tölvupóstinum vísar konan til Helga Seljan fréttamanns á RÚV sem hafði fimm dögum áður mætt í viðtalsþátt Gísla Marteins og sagt að hann þyrfti geðhjálp vegna stríðsins við Samherja. Tilfallandi fjallaði um samhengi málsins þegar heimildarmaðurinn bauðst til að ganga fram fyrir skjöldu og gera grein fyrir málavöxtu. Má nærri geta hver viðbrögð blaðamanna hafa verið; hvorki lögreglu né almenningi kemur við hvernig blaðamenn starfa á bakvið tjöldin.

Blaðamennirnir hafa reglulega verið í sambandi við veiku konuna og beðið hana lengstra laga að upplýsa ekki málið. Lengi vel hlýddi hún tilmælum blaðamanna. Síðast liðið sumar, aftur, gaf hún skýrslu til lögreglu þar sem hún staðfesti nöfn tveggja af þrem starfsmönnum RÚV sem tóku við síma skipstjórans 4. maí 2021. Miðað við það sem að ofan segir er ekki ólíklegt að þriðji maðurinn sé Helgi Seljan. Sú grunsemd kemur fram í niðurstöðu ríkissaksóknara.

Nú þegar liggur fyrir að rannsókn á hlutdeild blaðamanna skal hætt, a.m.k. í bili, en ekki á hlut veiku konunnar, er opin spurning hvort konan endurtaki tilboðið og ,,afhjúpi sig", eins og hún orðaði það í tölvupósti til Þóru Arnórsdóttur fyrir rúmum þrem árum. Ríkissaksóknari felldi ekki niður rannsóknina heldur staðfesti að henni væri hætt hvað blaðamenn varðar. Ef ný málsgögn koma fram, eða nýr vitnisburður, er hægt að hefja rannsókn á ný.

Þagnarbandalag blaðamanna gerir það að verkum að andlega veik kona situr ein uppi með sökina í byrlunar- og símamálinu. Þeir sex blaðamenn sem voru sakborningar njóta meðvirks stuðnings félaga sinna á öðrum fjölmiðlum sem ekkert hafa gert til að upplýsa málið.  Ekki er það stórmannlegt af hálfu sakborninganna sex að láta einstakling, sem á um sárt að binda, bera alla sök í máli sem stofnað var til að afla frétta fyrir blaðamenn - sem þáðu verðlaun fyrir. Fjölmiðlar almennt ríða ekki feitum hesti frá málinu. Þeir fá ríkisfé til að upplýsa almenning um brýn samfélagsmálefni. En það þykir ekki merkileg frétt að þrír fjölmiðlar og sex blaðamenn eiga aðild að byrlun, gagnastuldi og brot á friðhelgi. Raðfréttir hafa verið sagðar af minna tilefni. 

Einu sinni var í siðareglum Blaðamannafélags Íslands ákvæði sem veitti vernd þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu. Þáverandi varaformaður BÍ, Aðalsteinn Kjartansson, sá til þess að ákvæðið var fellt úr siðareglum. Aðalsteinn var sakborningur í byrlunar- og símamálinu. Tilfallandi bloggaði um nýmælið að blaðamaður grunaður um glæp skrifi reglur um siðlega háttsemi: Siðareglur miskunnarlausra blaðamanna.

Á meðan byrlunar- og símamálið er ekki að fullu upplýst mun íslensk blaðamennska ekki bera sitt barr. Þagnarbandalag sakborninganna sex og meðvirkni fjölmiðla er níðstöng í minnum höfð á meðan fréttir verða sagðar hér á landi.

 

 


Bloggfærslur 24. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband