Trump, málfræði, félagskyn og trans

Í ensku heitir líffræðilegt kyn sex, en málfræðilegt kyn gender. Flestir vita að líffræði er eitt en málfræði annað. Transfólk hefur aftur komist upp með að rugla þessu tvennu saman. Líffræðilegur karl getur orðið málfræðileg kona. Amerísk heimska.

Trump bannaði með forsetatilskipun að málfræðileg sérviska kæmi í stað líffræðilegra sanninda. Í vegabréfi skulu allir skráðir eftir líffræðilegu kyni, karl eða kona. Það er allur glæpurinn.

Á íslensku er sama orðið - kyn - notað í líffræði og málfræði. Allir íslenskumælandi vita að aðeins í málfræði, en ekki líffræði, er til hvorugkyn.

Transhugmyndafræðin er í heild sinni innflutt sérviska. Vegna tungumálsins var ekki hægt að selja hér á landi málfræðilegt kyn sem líffræðilegt ástand. Gripið var til þess ráðs að kalla gender á íslensku kyngervi. Í orðabók Hinseginsinna er þetta útskýrt:

Kyn (sex) og kyngervi (gender) eru lykilhugtök bæði innan hinseginfræða og kynjafræða. Í þessum fræðum þykir oft gagnlegt að greina á milli líffræðilegs kyns annars vegar, sem þá er einfaldlega nefnt kyn, og hins vegar félagslega mótað kyns, sem þá er nefnt kyngervi. Í almennu talmáli hérlendis vísar þó kyn oftast bæði til kyns og kyngervis. Á þessum vef verður kyn notað jöfnum höndum yfir líffræðilegt kyn og félagslegt kyn (kyngervi) sem er í samræmi við íslenska málvenju.

Íslenskan kemur í veg fyrir ruglandann á málfræði og líffræði. Til að komast upp með ruglið, en á öðrum forsendum, jafn fölskum, er kyngervi látið þýða félagslegt kyn. Munurinn er útskýrður á þennan veg:

Kyngervi er hið félagslega mótaða kyn en ekki hið líffræðilega kyn.

Eins og málfræði og líffræði eru sitt hvað þá er líffræði og félagsmótun tvennt ólíkt. Líffræði er áþreifanleg. Félagsmótun er orð um siði og venjur í samfélaginu sem eðli málsins samkvæmt eiga við hópa en ekki einstaklinga. Fyrirbærið ,,félagslegt kyn" er hugtak án innihalds þegar kemur að einstaklingum. Sá sem segist af ,,félagslegu kyni" fer með staðleysu, ímyndun.

Hugtakið ,,félagsmótun" er hægt að nota um siði og venjur sem áhrif hafa á hóphegðun, t.d. unglingsstráka eða leikskólabarna. Mannasiðir eru dæmi um félagsmótun, skráðar og óskráðar reglur á skólalóð er annað dæmi.

Um leið og hópunum sleppir, og einstaklingur er skoðaður, missir marks að tala um félagsmótun. Við segjum ekki um ókurteisan mann að hann sé illa félagsmótaður, heldur að hann kunni ekki mannasiði. Þótt við verðum fyrir margvíslegum samfélagslegum áhrifum berum við hvert og eitt ábyrgð á okkur sjálfum.

Ef karl segir ,,ég er félagsmótuð kona" þá fer hann með merkingarlausa setningu. Hann gæti allt eins sagt ,,ég er félagsmótuð bókahilla". Hverjum og einum er í sjálfsvald sett að segja slíkar setningar um sjálfa sig. Við sem samfélag eigum á hinn bóginn ekki að leggja trúnað á þvættinginn. Enn síður eigum að halda bábiljunum að börnum, líkt og Samtökin 78 komast upp með í leik- og grunnskólum.

Transhugmyndafræðin og kynjaruglið gerir í því að slá saman almennum hugtökum, sem eiga við samfélag og hópa, og sértækum áþreifanlegum lífsins sannindum; að kynin eru tvö og maður fæðist í öðru hvoru. Afleiðingin verður allsherjarruglingur þar sem enginn munur er gerður að staðreynd og ímynd. Ruglið plægir akurinn fyrir menn eins og Trump.

 

  


mbl.is Hvað er Trump búinn að gera?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband