Kristrún slær úr og í með ESB, grefur sér gröf

Ekkert ríki, sem gengur í Evrópusambandið, gerir það með hangandi hendi. Frumforsenda fyrir inngöngu er að ríkisstjórn hafi fengið meirihluta í þingkosningum fyrir þeirri stefnu að sækja um aðild og fara í aðlögunarviðræður. Það er ekkert til sem heitir að kíkja í pakkann, skoða hvaða kjör bjóðast í Brussel.

Ríkisstjórnarflokkarnir Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins fengu ekki atkvæði út á aðildarumsóknsókn að ESB í nýafstöðum kosningum. Aðildarumsókn var einfaldlega ekki á dagskrá í kosningabaráttunni.

Það eru hrein svik við kjósendur þessara flokka að ríkisstjórnin dufli og daðri við ESB.

Það sem meira er þá er frámunalega heimskulegt af hálfu ríkisstjórnarinnar að gefa til kynna forathugun að ESB-aðild og jafnvel undirbúning. Afleiðingin verður að öll mál ríkisstjórnarinnar verða skoðuð m.t.t. ESB-aðildar. Það felur í sér að miklu harðari mótspyrnu en annars yrði. 

ESB-aðild er ekki eins og hvert annað pólitískt álitamál. Í húfi er fullveldi þjóðarinnar. Fullveldi vinnst og tapast á áratugum og öldum. Ísland glataði fullveldinu á 40 ára tímabili á 13. öld sem kennt er við Sturlunga. Sjö öldum síðar vannst það á ný eftir skipulega baráttu í hartnær hundrað ár.

Kristrúnu forsætis var á fermingaraldri í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. sem sendi inn ESB-umsókn fyrir 16 árum.  Stjórnarskrármál þeirrar ríkisstjórnar var dauðanum merkt. Stjórnarskrárbreytingar voru túlkaðar sem upptaktur ESB-aðildar. Tillögur um fiskveiðistjórn sömu stjórnar voru lesnar og skildar sem undirbúningur að flytja forræði auðlindarinnar til Brussel.

Það er ekki nokkur einasti möguleiki að þjóðarvilji Íslendinga standi til ESB-aðildar. Evrópusambandið er í hnignunarferli. Næstu ár og áratugir fara í að glíma við Rússland sem mun standa með óvígan her á landamærum ESB-ríkja. Ef svo fer, sem sumir spá, að aukin ógn verði af Rússum á Norður-Atlantshafi er ekkert hald í ESB-hervernd. Í öryggis- og varnarmálum á nærsvæðum Íslands er ESB núll og nix.

ESB-daður Kristrúnar og Þorgarðar Katrínar utanríkis sýnir þær torlæsar á alþjóðmál. Báðar hjala þær um Úkraínu, sem er í órafjarlægð frá Íslandi og skiptir nákvæmlega engu um öryggismál lands og þjóðar. Daðrið verður þeim myllusteinn um háls í pólitískri vegferð næstu missera - í öllum málum.


mbl.is Til Brussel til að koma á eðlilegum samskiptum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 20. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband