RÚV flaggar mannréttindum, bara ekki skipstjórans

RÚV keypti Facebook-auglýsingu undir frétt um að tjáningarfrelsið væri ekki æðst mannréttinda. Vitnað er í dósent og dómara, Halldóru Þorsteinsdóttur, er kveður ótækt að ritskoðun sé ekki beitt á samfélagsmiðlum til að uppræta staðreyndavillur. Fyrir utan það lítilræði að staðreyndir eru ekki allar þar sem þær er séðar eru falsfréttir oft þær að sumum staðreyndum er sleppt en öðrum hampað.

Áhugi RÚV á mannréttindum er allrar virðingar verður. Nærtækara er þó að RÚV skoði eigin mannréttindabrot áður en ríkismiðillinn tekur til við að snupra aðra fyrir skort á virðingu fyrir helgum rétti manna.

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er undirstöðuskjal mannaréttinda. Strax í 12. grein yfirlýsingarinnar kemur eftirfarandi útlistun á mikilvægum mannaréttindum:

Eigi má eftir geðþótta raska heimilisfriði nokkurs manns, hnýsast í einkamál hans eða bréf, vanvirða hann eða spilla mannorði hans. Ber hverjum manni lagavernd gagnvart slíkum afskiptum eða árásum.

Í þágu blaðamanna sem kenndir eru við RSK-miðla, RÚV, Stundin og Kjarninn, var Páli skipstjóra Steingrímssyni byrlað, síma hans var stolið og afritaður á Efstaleiti. Á RÚV voru samdar fréttir, með vísun í einkagögn skipstjórans, til birtingar í Stundinni og Kjarnanum. Allt eru þetta staðreyndir sem auðvelt er að sannreyna - líkt og lögreglurannsókn hefur leitt í ljós. Lítið sem ekkert var gert með þessar staðreyndir í fjölmiðlum en því meira úr staðreyndum sem áttu að hafa verið í síma skipstjórans en voru ekki staðreyndir heldur frjálsleg túlkun og afbökun.

Heimilisfriði Páls skipstjóra var raskað, með því að samstarfsmaður blaðamanna var andlega veik eiginkona hans. Skipstjórinn var vanvirtur og mannorði hans spillt með því að hnýsast var í einkamál hans og þau borin á torg skrumskæld og afflutt. Í fáum orðum sagt; 12. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna var margbrotin í byrlunar- og símamálinu.

Þeir sex blaðamenn sem eru með stöðu sakborninga í lögreglurannsókn hafa allir nema einn beina tengingu við RÚV. Þóra Arnórsdóttir, Aðalsteinn Kjartansson, Arnar Þórisson, Ingi Freyr Vilhjálmsson og Þórður Snær Júlíusson vinna eða hafa unnið á RÚV, ýmist sem starfsmenn eða verktakar. Ekki er vitað til að sjötti sakborningurinn úr röðum blaðamanna, Arnar Þór Ingólfsson, nú á Heimildinni, hafi starfað á RÚV.

Hvað hefur RÚV gert til að upplýsa mannréttindabrot á Páli skipstjóra? Ekkert, nákvæmlega ekkert. Þvert á móti hylmir yfirstjórn RÚV yfir með blaðamönnum og kappkostar að þagga í hel byrlunar- og símamálið.

Það stendur upp á RÚV, Stefán Eiríksson útvarpsstjóra sérstaklega, að upplýsa um aðild starfsmanna ríkisfjölmiðilsins að mestu mannréttindabrotum sem nokkur einstaklingur hefur mátt þola af hálfu íslensks fjölmiðils.

Á meðan byrlunar- og símamálið er óupplýst minnir mannréttindaumræða RÚV á snöru í hengds manns húsi. 


Bloggfærslur 19. janúar 2025

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband