Mánudagur, 13. janúar 2025
Snorri og Gandri, málfrelsi og ritskoðun
Snorri Másson þingmaður Miðflokks og Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og fyrrum þingmaður Samfylkingar skiptast á skoðunum. Snorri reið á vaðið, Guðmundur Andri brást við. Öðrum þræði eru skoðanaskiptin um Trump og Evrópusambandið. Hinum þræðinum álitamál er lúta að málfrelsi og ritskoðun.
Snorri vekur athygli á að valdastofnanir, t.d. Evrópusambandið, sýna ríka tilhneigingu til ritskoðunar og banna óæskilegar skoðanir. Snorri er ekki einn um að þakka kjöri Trump að heldur sé hærra til lofts og víðari til veggja í málfrelsinu. Guðmundur Andri spyr á móti hvort ekki eigi að vernda minnihlutahópa og tekur vara á að ,,tuddaréttinum" sem er samlíking af skólalóðinni og vísar til að sumir tuddast á öðrum. Rithöfundurinn varpar fram eftirfarandi spurningu:
Er rétturinn til að lifa í samræmi við eigin sjálfsmynd æðri réttinum til að að gera athugasemdir sem kynnu að særa annað fólk?
Augljóst er, og Guðmundur Andri hlýtur að viðurkenna það, að hver og einn má hafa hvaða sjálfsmynd sem vera skal. Kallast hugsanafrelsi. Það felur í sér að sérhver má í huga sér vera hvað sem er; Jón, Guðrún, brunabíll eða bókahilla.
Börn eru með ævintýrum hvött til að gefa sig á vald ímyndunarheims. Það örvar þroska, sjálfsskilning og læsi á mannlífið. Er börn fullorðnast gera þau greinarmun á ímyndun og veruleika. Sum þó ekki, halda í bernsku sinni að mannlífið lúti lögmálum hugarflugs fremur en áþreifanleika. Fólk í þessari stöðu hefur sinn rétt, að skilgreina sig sjálft eftir behag. Illu heilli hefur sama fólkið ríka hneigð til að ganga á rétt annarra, sem aðskilja ímyndun frá hlutveruleika.
Gamanið tekur að kárna þegar krafist er að ímyndun eins verði veruleiki annars. Fullorðinn karlmaður hefur fullt leyfi að vera kona í huga sér en hann hefur enga heimild að krefjast þess að samferðarmenn hætti að sjá greinarmun á körlum og konum.
Guðmundur Andri gefur til kynna, en segir ekki beint, að rök standi til að yfirvöld grípi í taumana þegar einhverjir finna til særinda í umræðunni. Hann tekur aftur tuddalíkinguna af skólalóðinni og færir hana yfir á almenna umræðu fullorðinna. Rithöfundurinn setur mál sitt fram með spurningu:
Hvenær eigum við að grípa inn í þegar við verðum vitni að tuddaskap og yfirgangi?
Með ,,við" er átt við yfirvöld. Stutta svarið er að yfirvöld eiga almennt ekki að skipta sér af orðræðu frjálsra borgara. Viti bornir menn eru fullfærir um það sjálfir. Ómakleg orð og þau sem eru út í hött falla dauð af sjálfu sér.
Þeir sem fara halloka í umræðunni kenna andstæðingum iðulega um yfirgang og frekju þegar skipst er á orðum. Yfirvöld, lögregla og ákæruvald, eiga engin ráð að meta málefnalega hvað sé ,,tuddaskapur og yfirgangur" í skoðanaskiptum. Annað heiti á slíkum ásökunum er móðgunargirni. Málfrelsi má ekki takmarka þótt einhver fari í fýlu, móðgist. Á skólalóðinni eru leikir ekki bannaðir þótt einhver fari fram af þjösnaskap. Leikir barna og umræða fullorðinna þjóna stærra hlutverki en svo að einleikur fárra skipti sköpum. Án leikja og umræðu yrði tilveran valdboðin grámygla.
Í lok greinar sinnar biðst Guðmundur Andri undan því að vera kallaður ,,samfylkingarmaður" en Snorri viðhafði kennimarkið. Guðmundur Andri kveðst líta á sjálfan sig sem rithöfund. Trúlega er rithöfundurinn og fyrrum þingmaður Samfylkingar ekki þeirrar skoðunar að ákæruvaldið eigi að hlutast til séu menn auðkenndir á annan hátt en þeim sjálfum hugnast. Jafnvel þótt þeir móðgist.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)