RÚV vegur að nýlátnum manni

Almenna reglan í íslenskum fjölmiðlum er að andlátsfregnir eru hlutlægar og tillitssamar, gefa yfirlit yfir fjölskyldu og lífshlaup hins látna. Andlátsfregn er fyrsta fréttin um að samborgari hafi fallið frá. Ættingjar syrgja, vinir minnast. Engin skylda er á fjölmiðlum að birta dánarfrétt, heldur valkvætt. RÚV gerði frétt um andlát Benedikts Sveinssonar lögmanns sem var allt annað en hlutlæg og tillitssöm, sýndi þvert á móti ríkan vilja til að valda miska.

RÚV tók viðtengda andlátsfregn Morgunblaðsins og spann við hana ósmekklegum athugasemdum til að réttlæta fyrri atlögu að mannorði Benedikts heitins og koma höggi á son hans, Bjarna forsætisráðherra.

Aðstandendur Benedikts höfðu samband við fréttastofu RÚV og fóru fram á leiðréttingu og afsökunarbeiðni. Áður en þau samskipti verða rakin er rétt að huga að forsögunni, fyrstu atlögunni að orðspori manns sem féll frá í vikunni.

Haustið 2017 er Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Veruleg ókyrrð var í stjórnmálum, ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafði fallið árið áður. 

Síðdegis 14. september 2017 birtir RÚV frétt með fyrirsögninni Faðir forsætisráðherra ábyrgðist barnaníðing. Fyrirsögnin staðhæfir í einn stað að Benedikt axli ábyrgð á barnaníðingi. Í annan stað gefur fyrirsögn til kynna að Benedikt starfi í umboði sonar síns. Hvorugt er rétt. Benedikt hafði skrifað undir beiðni manns um uppreist æru. Maðurinn hafði 13 árum áður verið dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni. Í réttarríki axla menn ábyrgð á afbrotum með refsingu. Þeir sem skrifa undir beiðni brotamanns, sem tekið hefur út sína refsingu, að hann fái uppreist æru, eru meðmælendur formlegrar beiðni að sá dæmdi fái á ný borgaraleg réttindi sem hann missti við dóminn. Löng hefð var fyrir þessari málsmeðferð.

Nú má deila um hvort Benedikt hefði átt að skrifa undir beiðni dæmds manns að fá uppreist æru. Líkt og kemur fram í yfirlýsingu hans, í lok fréttarinnar auðvitað, er um að ræða mann tengdan kunningjafólki og hafði maðurinn annað slagið beðið Benedikt ásjár - m.a. þessa undirskrift. En að Benedikt þar með ábyrgist barnaníðing er stílfærsla sem ekki stenst skoðun. Enn langsóttara er að gefa til kynna Benedikt hafi skrifað undir í umboði Bjarna forsætisráðherra.

Bellibragð RÚV heppnaðist. Daginn eftir fréttina um Benedikt var ríkisstjórn Bjarna fallin, eins og aðgerðamiðstöðin á Efstaleiti sagði frá sigri hrósandi.

Atburðirnir haustið 2017 eru sagnfræði. Benedikt lést síðast liðið þriðjudagskvöld, dánarfréttin var í fimmtudagsútgáfu Morgunblaðsins. Fréttamenn RÚV tóku frétt Morgunblaðsins og bættu inn í hana frásögnina frá 2017 um undirskrift Benedikts á skjal dæmds manns er beiddist uppreistar æru. Aðstandendur höfðu samband við Stefán útvarpsstjóra og Heiðar Örn fréttastjóra og gerðu athugasemdir við óboðlega framsetningu í andlátsfregn. Undir hádegi var fregnin leiðrétt til að gera hana minna meiðandi. Í hádegisfréttum er þó ekki lagfært meira en svo að nýlátum manni er spyrt við kynferðisbrotamann. Í leiðréttri útgáfu á netinu er efnisgreinin, sem um ræðir, með eftirfarandi upphaf:

Benedikt hafði mikil óbein áhrif á stjórnmál síðasta áratug. Þar bar hæst þegar ríkisstjórn Bjarna, sonar hans, sprakk á haustdögum 2017 innan við ári...  

Benedikt hafði hvorki bein né óbein áhrif á stjórnmálin haustið 2017. Hann var löngu hættur afskiptum af stjórnmálum, eins og kemur fram í yfirliti Morgunblaðsins. Aðgerðafréttamennska RÚV hafði aftur veruleg áhrif, líkt og rakið er hér að ofan.

Stefán útvarpsstjóri svaraði ekki tölvupóstum vegna málsins, eftir því sem næst verður komist. Heiðar Örn skrifaði á hinn bóginn einum aðstandanda eftirfarandi:

Það er mikilvægt að hafa í huga að RÚV flytur ekki minningargreinar um látið fólk en segir hins vegar stundum frá andláti fólks - þá aðallega fólks sem hefur sett svip sinn á samtíð sína. Þegar slíkar fréttir eru sagðar þarf að setja hlutina í samhengi - rifja upp hvernig viðkomandi hafði áhrif á samtíð sína, bein eða óbein. Í þessu tilfelli er ekki hægt að líta fram hjá því að óbein áhrif Benedikts heitins á stjórnmálasöguna voru talsverð. Með því að taka þetta fram er ekki verið að kasta rýrð á látinn mann heldur er einungis verið að rifja upp staðreyndir sem voru mikið í fréttum á sínum tíma. (feitletr. pv)

RÚV valdi sértækt samhengi til að varpa rýrð á nýlátinn mann. Samhengið valdi RÚV til að réttlæta fyrri atlögu að Benedikt heitum Sveinssyni. Staðreyndirnar sem fréttastofan teflir fram eru handvaldar til að ófrægja og meiða. Vinnubrögð ríkisfjölmiðilsins eru til háborinnar skammar.

 

 


mbl.is Andlát: Benedikt Sveinsson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. september 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband