Reiði og fyrirgefning, sjálfsvirðing og hefnd

,,Ef fyrirgefning er svar við (flest)öllu því sem aflaga fer, er hún ekki svar við neinu," skrifar Sólveig Anna Bóasdóttir prófessor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands í grein sem fjallar um ofmat samtímans á fyrirgefningunni annars vegar og hins vegar vanmat á mikilvægi reiðinnar, sem Sólveig kallar gremju.

Greinin er tólf ára gömul en hefur, af ástæðum tilfallandi ókunnugum, fengið nýdreifingu á netinu. Það sem segir í síðustu efnisgreinum þessa bloggs, um hefnd og samfélagsmiðla, er ekki gagnrýni á Sólveigu Önnu, enda voru samfélagsmiðlar ekki þeir sömu fyrir rúmum áratug og þeir eru nú. 

Sólveig Anna les það úr tíðarandanum að krafa sé höfð í frammi að þolendur fyrirgefi misgjörðamönnum sínum. Við það, segir Sólveig Anna, getur tapast sjálfsvirðingin. Þolandinn fær tvöfalda útreið. Verður fyrst fyrir tjóni af völdum geranda og glatar sjálfvirðingunni í framhaldi vegna kröfu samfélagsins um að fyrirgefa. Gildi réttlátrar reiði/gremju er að með henni heldur þolandinn stoltinu - eða virðingu fyrir sjálfinu.

Hugmyndin um fyrirgefningu finnst í þekktum eingyðistrúarbrögðum, líkt og Sólveig Anna rekur. Í okkar menningu er fyrirgefningin með kristnar rætur. Í athyglisverðum efnisgreinum ræðir höfundur valdahlutföll þolanda og geranda í samhengi við fyrirgefninguna. Sólveig Anna gerir því skóna að þar kenni mismunar. Sögulega, t.d. á miðöldum, gat sá einn fyrirgefið sem hafði vald yfir þeim er hlaut. Þannig gat leiguliði aldrei vænst, hvaða þá krafist, að lénsherra bæðist fyrirgefningar. Leiguliða, sem galt ekki landsskuldina, gat aftur verið miskunnuð óskilvísin við sér æðri.

Það má skilja boðskap Sólveigar Önnu á þann veg betra sé að burðast með gremju í stað þess að fyrirgefa. Þannig haldi maður sjálfsvirðingunni. Langvinn gremja er þó tæplega farsælt hugarástand og gerir menn fremur smærri í sniðum en stærri. 

Misgjörð sem særir stolt þarf meiri leiðréttingu en að neita gerandanum um fyrirgefningu. Það vissu heiðnir menn og fyrstu kynslóðir kristinna Íslendinga. Til að sefa gremjuna þurfti annað tveggja hefnd eða miskabætur og þær oftast ríflegar.

Hefnd er enn stunduð af þolendum sem eru minnimáttar gerendum. Ekki hefnd til líkamstjóns, eins og karlar tíðkuðu í Íslendingasögum og Sturlungu, oft eftir vélráð kvenna, heldur á samfélagsmiðlum. Blóðhefnd til forna og mannorðsatlögur á samfélagsmiðlum eru tvær útgáfur óopinbers réttarvörslukerfis. Í þúsund ár er maðurinn samur við sig, hvað sem líður menningu og trú.

Tilfallandi telur að fyrirgefning og gremja/reiði séu tvær hliðar sömu myntar. Í báðum tilvikum er um að ræða tilfinningar í brjósti hvers manns. Einstaklingurinn velur hvorn kostinn hann tekur.  Í Svínfellingasögu valdi Ögmundur bóndi gremju fram yfir fyrirgefningu og deyddi 17 ára fósturson sinn Guðmund og bróður hans. Ögmundur galt manngjöld fyrir bræðurna, varð eignalítill og héraðsrækur. Sjálfsvirðingin fólst í valinu. Sjálfgefið er að viðhorf samfélagsins skipta máli. Tilfinningar eru persónulegar en útrás þeirra samfélagslegt málefni að því marki sem þær varða aðra. Ögmundur var 13du aldar maður. Tilfallandi gisk er að hann hefði í dag valið fyrirgefninguna.

 

 


Bloggfærslur 9. ágúst 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband