Mannjöfnuður, orðspor og hópar

Mannjöfnuður í Íslendingasögum fer þannig fram að tvímenningar þrátta um mannkosti tveggja fjarstaddra manna, yfirleitt höfðingja, og hvor sé hinum fremri. Í sögunum er mannjöfnuður undanfari átaka. Óbeinu skilaboðin eru að samanburður í orðum sé tvíbent vopn. Verkin tali sínu máli, síður útleggingar og ályktanir. 

Orðspor manna var höfundum Íslendingasagna hugleikið. Efnisleg gæði voru lítils virði beið orðstír hnekki. Menn unnu sér inn rykti, fengu það ekki á silfurfati. Með þeim fyrirvara að uppruni manna gaf þeim ýmist forskot eða bagga til að bera. Væntingar til afkomanda höfðingja voru aðrar en til manns af þrælakyni.

Mál horfa á annan veg í dag. Forgengileg verðmæti eru æðst gæða, minna er spurt hvernig þau eru fengin. Lög og reglugerðir mæla fyrir hverjir séu verðugastir. Í öndverðu velferðarkerfi, fyrir miðja síðustu öld, voru það fátækir og sjúkir er fengu opinbera ölmusu. Eimdi þó enn af horfnum hugmyndaheimi er skömm þótti að segja sig til sveitar.

Ekki löngu áður varð til voldug kenning um að öreigar allra landa skyldu sameinast, þeir hefðu engu að tapa nema hlekkjunum.

Skortur einstaklinga á sjálfsvirðingu er hvati til hópamyndunar. Hópurinn felur lítilmennsku hvers og eins; því betur sem hópurinn er stærri.

Út á þetta ganga skipulagðir hópadagar.

Hópajöfnuður samtímans er ólíkur mannjöfnuði Íslendingasagna. Jöfnuðurinn er niður á við. Þeir eru verðugastir sem stríða við mestu bágindin. Mesta eymd hvers manns er að vera sjálfum sér týndur. Erfiði er að finna sjálfan sig. Auðveldara er ganga í félag týndra sálna. Hópurinn tekur að sér að skilgreina einstaklinginn. Úr verður ístöðulaus hópsál.  


Bloggfærslur 7. ágúst 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband