Útlendingar, alþjóðahyggja og þjóðfrelsi

Óeirðirnar í Bretland hófust er innflytjandi frá Afríku drap þrjár barnungar stúlkur í Southport. Die Welt telst hófstillt miðhægri þýsk útgáfa. Þar segir um mótmælin:

Þeir sveipuðu sig enskum fánum og öskruðu ,,við viljum endurheimta landið okkar", gerðu umsátur um moskur, kveiktu í bílum og verslunum.

Yfirskrift umfjöllunar Die Welt er að óeirðirnar í Bretlandi sýni afleiðingar misheppnaðrar útlendingastefnu.

Ríkjandi útlendingastefna vesturlanda síðustu áratugi er að taka við innflytjendum. Stefnan samræmist ráðandi alþjóðahyggju, sem í grunninn segir íbúa jarðkringlunnar heimsborgara er hafi búseturétt hvar sem þeim hentar á byggðu bóli. Alþjóðahyggjan heggur að rótum þjóðríkjareglunnar, sem mælir fyrir rétti þjóða til eigin ríkis.

Alþjóðahyggjan lítur svo á að þjóðir séu úrelt fyrirbæri. Heimsborgarinn í alþjóðaþorpinu er framtíðarsýnin. Tilraunir til að umskapa einstaklinga í anda hugmyndafræði eru ekki nýjar af nálinni. Í Sovétríkjunum sálugu var hinn sósíalíski maður fyrirmyndin, góðgjarn, vinnusamur og yfirvaldinu hlýðinn. Að ekki sé talað um eldri trúarhugmyndir um ,,rétta" útgáfu að manninum.

Tilfellið er að mennskan er ekki við eina fjölina felld. Samfélagsskipan manna tekur í sögulegu samhengi ávallt mið af hvað telst rétt og eftirsóknarvert annars vegar og hins vegar hvað sé illt og andstyggilegt. Siðir og lög samfélagsins byggja á þessu grunnatriðum. Ekki hefur tekist að finna sniðmát siða og laga sem öllum henta. Tunga, saga og menning skilgreina samfélög. Úr þeim jarðvegi sprettur samfélagsgerðin. Af þessari ástæðu er þjóðríkið skásta skipulag mannsins.

Í þjóðríkinu er ekki um að ræða frelsi alþjóðahyggjunnar, þar sem hver má haga sér eftir hvaða siðum og háttum sem vera skal, heldur setur þjóðhyggjan almennan ramma um frelsi einstaklinga og leggur til yfirvald, lögreglu og réttarkerfi, sem gætir m.a. að frelsi eins verði ekki öðrum áþján. 

Alþjóðahyggjan vinnur með ímyndun af einstaklingi og samfélagi sem ekki vinnandi vegur er að skapa í raunheimi. Þjóðhyggjan, á hinn bóginn, er raunsærri. Forsendan er að tungumál, saga og menning móti mannlífið. Frelsi byggt á þjóðhyggju er mögulegt; frelsi reist á alþjóðahyggju þýðir óeirðir.


mbl.is Allt verði gert til að ná fram réttlæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. ágúst 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband