Fall Katrínar bjargaði ríkisstjórninni

Bjarkey ráðherra matvæla stóðst vantrauststillögu á alþingi, eins og búist var við. Enginn stjórnarflokkanna þriggja hefur minnsta áhuga á ótímabærum kosningum. Metnaður ríkisstjórna er að ljúka kjörtímabili og leggja verk sín í dóm kjósenda. Þannig á þingræðisútgáfa lýðræðis að virka.

Í raun var annað sem bjargaði Bjarkey, og þar með ríkisstjórninni, frá afsögn. Tap Katrínar Jakobsdóttur í forsetakosningunum fyrir sex vikum gaf ríkisstjórninni framhaldslíf.

Ríkisstjórnarsamstarfs Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, arftaka Sósíalistaflokksins gamla, er undantekning í stjórnmálasögunni. Er Katrínarstjórnin var mynduð, 2017, voru 70 ár síðan flokksstraumarnir tveir lágu saman. Seinni heimsstyrjöld þurfti til að þess öfl fundu samnefnara í fyrra skiptið; hrunið og eftirmál þess skýra seinna tilvikið. Kannski er full mikið sagt að Sjálfstæðisflokkur og Vinstri grænir séu eldur og vatn, en stappar nærri.

Landsstjórnin var í óreiðu 2017. Síðustu tvær ríkisstjórnin féllu án þess að ljúka kjörtímabilinu. Viðvarandi stjórnarkreppa blasi við með lausatökum á brýnum málefnum samfélagsins En þökk sé Bjarna Ben. og Katrínu tókst að mynda stöðuga landsstjórn sem fékk endurnýjað umboð við síðustu kosningar. Í ljósi kringumstæðna var það pólitískt afrek.

Það kraumar þar sem eldur og vatn mætast. Síðustu misseri er morgunljóst að bandalagstími Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er liðinn. Margt kemur til en grunnástæðan er að meginflokkarnir í ríkisstjórninni eru pólitískar andstæður.

Með því að Katrín sagði af sér embætti forsætisráðherra og bauð sig fram til forseta var þjóðinni sagt að ekki stæði til að framlengja undantekningu íslenskra stjórnmála. En pólitíska óþolið sem andstæðurnar höfðu byggt upp þurfti útrás. Tap Katrínar fyrir sex vikum tappaði af óþolinu og fór langt með að skapa starfsfrið stjórnarinnar út kjörtímabilið. Ólík pólitísk öfl, s.s. kratar, óánægðir sjálfstæðismenn og óreiðuliðið á vinstri kantinum fengu hugsvölun að sjá óbeinan frambjóðanda ríkisstjórnarinnar lúta í gras.

Það sem vó salt í forsetakosningunum voru persónuvinsældir Katrínar annars vegar og hins vegar óvinsældir ríkisstjórnarinnar. Óvinsældirnar urðu þyngri á metunum. Skömmin var nánast áþreifanleg í samfélaginu er góður og gegnheill stjórnmálamaður var látinn ganga plankann til að pólitísk ólund fengi útrás. Stjórnmál eiga það til að laða fram miður geðþekka eiginleika lýðsins. Í þessu tilfelli vanþakklæti.

 

 

 


mbl.is Tillagan til að veiða atkvæði og sundra stjórninni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 21. júní 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband