Sunnudagur, 26. maí 2024
Þegnskylda, frelsi og ungmenni
Ríki nota herskyldu til að verja sig. Þegnskylduvinna er ekki til að verja ríkið innrás óvinveittra heldur skapa einingu, samræmt göngulag í þágu samfélagsins. Aukabónus er að ungmenni, sem þegnskylduvinnan er einkum hugsuð fyrir, þjálfist að vinna að sameiginlegum markmiðum.
Einstaklingsfrelsið, eins og það hefur þróast á vesturlöndum eftir seinna stríð, gerir lítið með samfélag en þess meira með rétt hvers og eins að haga lífi sínu eins og hann kýs. Einn valkostur er að gera ekkert og lifa á atvinnuleysisbótum og opinberum styrkjum - eða þá foreldrum.
Tillaga Íhaldsflokksins breska um þegnskylduvinnu miðast við að ungmenni 18 ára sem ekki eru í skóla og ekki sinna herþjónustu leggi sitt af mörkum til samfélagsins með vinnukvöð. Hún yrði ekki mjög íþyngjandi, ein helgi í mánuði.
En, eins og kerlingin sagði, það er margt í mörgu. Eftirfarandi tilvitnun er í Harald Guðmundsson þingmann á alþingi Íslendinga fyrir rúmum 80 árum:
Og þetta er ákaflega eðlilegt, þegar fyrst og fremst er lítið til þess atvinnuleysis fyrir ungt fólk, sem var þangað til Bretavinnan kom til sögunnar. Og það var fullkomlega eðlilegt, að menn litu til þegnskylduvinnunnar, þegar hundruð eða þúsundir unglinga áttu engrar atvinnu von og höfðu ekki ástæður til þess að afla sér menntunar.
Vandamálið er ekki nýtt, að ungmenni hafi ekki nóg fyrir stafni og sjái ekki ástæðu til að mennta sig.
Íslendingar felldu með afgerandi hætti, 90% andvígir í þjóðaratkvæðagreiðslu 1916, frumvarp um þegnskylduvinnu. Hér á Íslandi virtist hugmyndin um þegnskylduvinnu að einhverju leyti sprottin af ótta um að sjálfræði sveitamannsins ylli vandræðum er hann flytti á mölina. Stoltur hokurbóndinn yrði að læra samræmt þéttbýlisgöngulag og undirgangast þegnskap bæjar- og þorpssamfélags. Þannig skrifaði Lúðvíg Guðmundsson í Vísi vorið 1941:
Íslenska þjóðin, sem alin er upp við einstaklingshyggju í dreifbýli, var ekki enn undir það búin að veita boðskap hans [um þegnskylduvinnu] viðtöku
Íslendingar, góðu heilli, búa hvorki við herskyldu né þegnskylduvinnu. Við látum skattskylduna nægja.
![]() |
Íhaldsflokkurinn lofar þegnskylduvinnu ungmenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)