Þriðjudagur, 9. apríl 2024
Þórður Snær og Aðalsteinn játa aðild að málum Páls skipstjóra
Páll skipstjóri Steingrímsson skrifaði Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra tölvupóst sumarið 2022. Krafa skipstjórans var að undirmenn Stefáns, fréttamenn RÚV, létu barnsmóður og fyrrum eiginkonu sína í friði. Konan glímir við alvarleg veikindi og má illa við yfirgangi blaðamanna, sem m.a. tóku af konunni einkasíma hennar.
Tölvupóstinn skrifaði skipstjórinn til Stefáns, sem sagt, en sendi afrit á Þórð Snæ ritstjóra Kjarnans og á Aðalstein Kjartansson blaðamann á Stundinni. Hvorugur er nafngreindur í tölvupóstinum, aðeins er talað um samverkamenn RÚV. Samheiti fjölmiðlanna þriggja er RSK-miðlar. Áramótin 2022/2023 sameinuðust Kjarninn og Stundin undir merkjum Heimildarinnar.
Blaðamenn RSk-miðla höfðu verið í sambandi við eiginkonu Páls skipstjóra frá vorinu 2021. Þann þriðja maí árið 2021 byrlaði hún Páli, sem féll í öngvit og var meðvitundarlaus í þrjá daga. Á meðan tók konan síma eiginmannsins traustataki og færði blaðamönnum samkvæmt skipulagi. Sími skipstjórans var afritaður á Efstaleiti í húsakynnum RÚV. Eftir afritun var símanum skilað í púss Páls. Þann 21. maí 2021 birtust samræmdar fréttir í Kjarnanum og Stundinni um meinta skæruliðadeild Samherja. Í báðum fréttum var vísað í stolin gögn úr síma skipstjórans.
Eftir að lögreglurannsókn hófst sumarið 2021 óx ágangur blaðamanna gagnvart konunni. Andleg líðan hennar versnaði stöðugt en blaðamenn héldu áreitinu áfram allt það ár og árið eftir. Tilgangurinn var að hafa áhrif á framburð konunnar þegar hún gaf lögregluskýrslu sem sakborningur í refsiverðu athæfi, byrlun og stuldi. Þegar um er að ræða andlega veikan einstakling kallast vinnulag blaðamanna að æra óstöðugan. Fyrsta yfirheyrslan fór fram 5. október 2021. Sumarið 2022 óttuðust börn þeirra hjóna verulega um velferð móður sinnar og báðu pabba að freista þess að draga úr linnulausum atgangi blaðamanna.
Þetta er aðdragandinn að tölvupósti Páls skipstjóra.
Stefán útvarpsstjóri, Þórður Snær og Aðalsteinn kusu að líta á tölvupóstinn sem hótun í sinn garð og kærðu Pál skipstjóra til lögreglunnar.
Þremenningarnir hefðu getað sagt við skipstjórann, eins og þeir gerðu í lögregluskýrslu, (ath. Stefán hefur enn ekki verið yfirheyrður svo vitað sé) að þeir þekktu hvorki haus né sporð á eiginkonu hans fyrrverandi og vissu ekki hvað hann væri að tala um. Lögregluskýrslur, yfirheyrslur yfir Aðalsteini og Þórði Snæ, sem tilfallandi hefur undir höndum, hafa einmitt þetta eftir RSK-tvílembingunum; þeir hafi ekki hugmynd um tilvist veiku konunnar og aldrei átt samskipti við hana.
En í stað þess að segja við skipstjórann að þeir þekktu ekki konuna, sem Páll vildi að þeir létu í friði, ákváðu þremenningarnir að kæra Pál. Blaðamenn eiga að heita sérfræðingar í að upplýsa. Hvers vegna upplýstu þeir ekki skipstjórann að hann færi mannavillt, einhverjir aðrir en þeir hafi herjað á konuna?
Nú hafa tvö embætti farið yfir kæruna, lögreglan fyrst en síðan ríkissaksóknari. Niðurstaðan er einróma. Páll hótaði engu misjöfnu þegar hann byrsti sig. Stefán útvarpsstjóri undi niðurstöðu lögreglu og kærði ekki niðurfellingu málsins. Þórður Snær og Aðalsteinn á hinn bóginn kærðu niðurfellinguna til ríkissaksóknara. Þeim er kappsmál að líma sig sem fastast við málefni Páls skipstjóra.
Kærumálið er endanlega afgreitt. Eftir stendur að Þórður Snær og Aðalsteinn eru báðir sakborningar í rannsókn lögreglu á byrlun Páls skipstjóra, stuldi á síma hans og afritun. Með kærunni til lögreglu tóku Þórður Snær og Aðalsteinn málið til sín. Þeir notuðu ekki sömu afsökun og í lögregluyfirheyrslu um aðkomu að byrlun og stuldi; að þeir vissu ekkert um eiginkonu skipstjórans. Vitanlega vita tvímenningarnir allt sem vert er að vita um hvað gerðist vorið 2021. Þeir eru skráðir höfundar sömu fréttar sem birtist á sama tíma, að morgni 21. maí, í tveim aðskildum fjölmiðlum, Stundinni og Kjarnanum. Án byrlunar og stuldar hefðu fréttirnar ekki birst.
Ekki beittustu hnífarnir í skúffunni, Þórður Snær og Aðalsteinn, að kæra sjálfa sig inn í mál Páls skipstjóra. Verði þeim að góðu, fyrirséð málaferli munu taka mörg ár og fara fyrir öll dómsstig. Starfsferill fleiri en eins verðlaunablaðamanns fer á bálið, kennitölur verða gjaldþrota.
Álitshnekkir íslensku blaðamannastéttarinnar verður alþjóðlegt fréttaefni. Spurt verður hvernig heil stétt gat tileinkað sér það siðleysi að verðlauna byrlun og þjófnað. Til svara verður formaður Blaðamannafélags Íslands. Það verður upplit á erlendum blaðamönnum er þeir sannfrétta að formaðurinn sé skattsvikari sem keypti auglýsingaherferð um mikilvægi blaðamennsku fyrir lýðræði og almannahagsmuni en verðlaunaði sakborninga í refsimáli.
Kærur Þórðar Snæs og Aðalsteins endanlega felldar niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)