Pólitík eftir Katrínu

Frá hruni hefur Katrín verið ráðherra í 11 ár, forsætisráðherra síðustu sjö ár. Vinstri grænir er flokkur stofnaður um aldamótin til að vera andstöðuflokkur en varð stjórnfestuflokkur undir forystu Katrínar. Aðstæður fremur en ásetningur réð ferðinni.

Hrunið varð stjórnmálakerfinu dýrkeyptara en hagkerfinu. Hagvísar eins verðbólga, atvinnuleysi og hagvöxtur, komust í samt lag fáeinum misserum eftir gjaldþrot bankanna haustið 2008. Stjórnmálin, og opinber umræða, eru í kreppuástandi fram á síðustu misseri. Óvenjulegar aðstæður kölluðu á óhefðbundnar málamiðlanir.  

Vinstri grænir og forverar, Alþýðubandalag og Sósíalistaflokkur, höfðu ekki starfað í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki frá 1947, í nýsköpunarstjórninni, er Katrín varð forsætisráherra 2017. Málamiðlunin heldur líklega fram að þingkosningum árið 2025 (gætu þó orðið fyrr). Katrín bjó ekki til málamiðlunina upp á eigin spýtur. En hún svaraði kalli tímans. Stjórnmálamönnum er ekki öllum það gefið.

Tilfallandi er andsnúinn þorra pólitískra stefnumála Katrínar og Vinstri grænna. Nægir þar að nefna kynjaruglið og loftslagsbábiljuna. Engu að síður; Katrínu ber að þakka landsstjórnina síðustu sjö ár. Í heildina tókst vel til og það er ekki síst fyrir verkstjórn fráfarandi forsætisráðherra. Án hennar hefði pólitíkin orðið villtari og vitlausari, einkum á vinstri vængnum.

Hvað gerist í pólitík eftir Katrínu?

Merkilegir hlutir gera sig sýnilega í skoðanakönnunum. Hófstilltari Samfylking, undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, fer með himinskautum. En samt eru harla litlar líkur á vinstristjórn, hvort heldur þingkosningar fari fram í ár eða næsta. Ástæðan er fylgishrun Vinstri grænna. Með Katrínu sem formann voru litlar líkur á viðsnúningi. Án hennar mega Vinstri grænir þakka fyrir að lafa á þingi.

Kristrún og Samfylking gætu dregið til sín fimmtungs eða fjórðungsfylgi. Þrjátíu prósent mælingar í skoðanakönnun upp á síðkastið eru ekki líklegar til að raungerast á kjördegi. Samfylking yrði hið minnsta að fá þrjá vinstriflokka með sér í meirihluta: Vinstri græna, Viðreisn og Pírata. Jólasveinar koma ekki til byggða í ágúst. 

Sem sagt: vinstristjórn er ekki í spilunum um fyrirsjáanlega framtíð. Mistökin frá 2009-2013 verða ekki endurtekin. Örvæntingin eftir hrun kemur ekki aftur.

Þá eru eftir tveir valkostir. Í fyrsta lagi stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar með þriðja hjólið undir vagni. Köllum það kratastjórn.

Í öðru lagi stjórn Sjálfstæðisflokks og Miðflokks með þriðja hjólið undir vagni. Köllum það hægristjórn.

Þriðja hjólið í báðum tilvikum er Framsókn, ef að líkum lætur. Miðflokkurinn kæmi til greina í kratastjórnina en þó tæplega. Olía og vatn blandast illa. Af sömu ástæðu er ósennilegt að Samfylkingin skriði uppí hjá hægristjórn.

Raunveruleg kosningabarátta næsta vetrar verður á milli Miðflokks og Samfylkingar. Sjálfstæðisflokkurinn er gefin stærð, 20-25 prósent. Miðflokkurinn mælist í dag hálfu minni en Samfylking. Vöxtur Miðflokksins er jafn og stöðugur, ekki er langt síðan hann mældist við fjögur prósentin. Fylgið hefur meira en þrefaldast. Spyrjum að leikslokum.

Íslensk stjórnmál eru loksins, vonum seinna, að ná jafnvægi eftir hrun. Gráglettni örlaganna er að Katrín Jakobsdóttir, hófstillt kona í róttæklingaflokki, hverfur af sviði stjórnmálanna í þann mund sem meðalhófið fær brautargengi. 


mbl.is Katrín segir af sér formennsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. apríl 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband