Þriðjudagur, 16. apríl 2024
Glæpur í huga og glæpur í reynd
Tilfallandi skrifaði fyrsta bloggið um byrlunar- og símastuldsmálið 2. nóvember 2021. Bloggið er almenn pæling um að engar fréttir séu af norðlenska skipstjóranum sem varð um vorið fyrir byrlun og símastuldi.
Tilfallandi veltir stundum fyrir sér hvort ekki hefði verið farsælla þennan þriðjudag í nóvember fyrir þrem árum að skrifa um ensku knattspyrnuna, loftslagsmál, íslensk stjórnmál eða bara eitthvað allt annað en byrlun, þjófnað og fjölmiðla.
Færslan 2. nóvember 2021 er blásaklaus en olli grunsamlegum taugatitringi. Hversdagslegar bloggfærslur fá tíu eða tuttugu viðbrögð sem í talmáli kallast læk. Sjaldan fá færslur um eða yfir hundrað hnippingar. Færslan 2. nóvember fékk 255 hnippingar. Eitthvað undarlegt var við mál skipstjórans og blaðamanna.
Í framhaldi fékk tilfallandi upplýsingar héðan og þaðan og skrifaði tvö eða þrjú stutt blogg. Fyrsta samantektin birtist tæpum tveim vikum eftir færsluna 2. nóvember. Yfirskriftin er Heiður RÚV og glæpurinn gegn Páli skipstjóra.
Viðbrögð blaðamanna voru engin til að byrja með. En svo tóku Þórður Snær á Kjarnanum og Aðalsteinn á Stundinni upp á því að renna stoðum undir tilfallandi grun að víðtækt samráð var á milli RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðla, sem áttu að heita sjálfstæðir fjölmiðlar. (Innan sviga, í byrjun árs 2023 sameinuðust Stundin og Kjarninn, heita nú Heimildin).
Þann 18. nóvember 2021 birtu Þórður Snær og Aðalsteinn hvor sína greinina um að tilfallandi væri illa haldinn ranghugmyndum ef hann héldi að lögreglurannsókn stæði yfir á byrlun- og símastuldi. Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar, skrifaði Þórður Snær í Kjarnann. Svar við ásökun um glæp, reit Aðalsteinn í Stundina. Greinarnar birtust síðdegis sama daginn. Skipulagið líkt og beitt var sama vor. Þann 21. maí 2021 birtu Þórður Snær og Aðalsteinn samtímis fréttir um skæruliðadeild Samherja og vísuðu báðir í gögn úr síma skipstjórans. Í blaðamennsku þekkist ekki að hádramatískt fréttaefni rati á tvær ritstjórnir á sama tíma án skipulags. Enn síður að tvær ritstjórnir vinni úr margþátta efni og út komi um það bil sama fréttin. Sími skipstjórans geymdi ógrynni upplýsinga. En niðurstaðan var hliðstæðar fréttir með keimlíkri fyrirsögn.
Fyrirsögn Aðalsteins í Stundinni: Afhjúpun Skæruliðar Samherja - Tannhjólin í áróðursvél Samherja
Fyrirsögn Þórðar Snæs/Arnars Þórs í Kjarnanum: Skæruliðadeild Samherja sem vill stinga, snúa og strá svo salti í sárið
Allir sem eitthvað kunna fyrir sér í blaðamennsku vita að fyrirsagnirnar tvær verða ekki samdar nema í samráði. Þórður Snær og Aðalsteinn eiga að heita sjálfstæðir blaðamenn, hvor á sínum miðlinum á þessum tíma. En það er þriðji aðilinn, með starfsstöð á RÚV, sem leggur línurnar. Helgi Seljan og Þóra Arnórsdóttir eru líklegustu frumhöfundar fréttanna í Stundinni og Kjarnanum. Myndskreytingar með báðum fréttum koma úr síma skipstjórans. Samráðið sýndi skipulag.
Það er svo annað mál, og ögn fyndið, þegar fréttirnar frá 21. maí eru lesnar aftur, að ein helsta ásökunin á Pál skipstjóra er að hann hafi ekki skrifað greinar sínar sjálfur. Þórður Snær og Arnar Þór annars vegar og hins vegar Aðalsteinn migu annarra manna hlandi og hlutu verðlaun fyrir.
Þórður Snær, Arnar Þór, Aðalsteinn og Þóra urðu sakborningar í febrúar 2022. Vissi tilfallandi með þriggja mánaða fyrirvara, þ.e. þegar hann byrjaði að skrifa um málið, að blaðamenn yrðu grunaðir um glæp í lögreglurannsókn? Nei, en tilfallandi vissi í nóvember 2021 að glæpur var framinn um vorið. Með þekkingu á blaðamennsku sem bakhjarl sást skýrt og greinilega að glæpurinn bar öll einkenni skipulags.
Opin spurning var hvernig og hvenær skipulagið hófst. Var það fyrir eða eftir byrlun og stuld? Upplýst var í janúar 2023 að Þóra Arnórsdóttir keypti Samsung-síma, samskonar og Páls skipstjóra, í apríl 2021. Þá mátti álykta að blaðamenn vissu með fyrirvara að sími skipstjórans væri væntanlegur á Efstaleiti til afritunar. Til að gera fingraförin enn greinilegri valdi Þóra símanúmerið 680 2140 á afritunarsímann. Númerið á síma skipstjórans er 680 214X.
Frá byrlun skipstjórans til birtingar frétta var ekki röð tilviljana heldur miðlægur ásetningur að misnota verulega veikan einstakling, þáverandi eiginkonu skipstjórans, til óhæfuverka í þágu siðlausra blaðamanna. Haustið fyrir þremur árum styrktist grunurinn jafnt og þétt að ráðandi fjölmiðlabandalag, RSK-miðlar, hafði tekið lögin í sínar hendur. Tilfallandi taldi ábyrgðarhlut að láta málið niður falla, ekki síst þar sem aðrir fjölmiðlar sinntu litt frétt á Richter-skala.
Það sem endanlega sannfærði tilfallandi um aðild blaðamanna var flótti þeirra frá réttvísinni. Blaðamenn voru boðaðir í yfirheyrslu í febrúar 2022 en þeir mættu ekki fyrr en sex mánuðum seinna, í ágúst og september.
Ef sök blaðamanna var engin eða léttvæg hefðu þeir skilað sér til yfirheyrslu við boðun og gert grein fyrir vitneskjunni sem þeir bjuggu yfir. En þeir lögðu á flótta í tvennum skilningi. Fyrst með því að mæta ekki í skýrslutöku og síðar með því að eiga ekki trúverðuga frásögn um málsatvik. Blaðamennirnir voru uppfullir af ranghugmyndum um eigið mikilvægi, að þeir væru hafnir yfir lög og rétt, og að yfirvöld stunduðu ofsóknir gegn frjálsri fjölmiðlun. Þeir fengu danskan blaðamann, Lasse Skytt, til að básúna fyrir alþjóð að á Íslandi sættu blaðamenn nauðung og illri meðferð. Allt var það uppspuni, ímyndun blaðamanna sem gera ekki greinarmun á skáldskap og reynd. Saklausir halda fram sannindum í málsvörn; þeir seku skálda.
Þeir sem haga sér eins og sakamenn eru vanalega með óhreint mjöl í pokahorninu. Saklausir leggja ekki á flótta, neita ekki bláköldum staðreyndum. Þórður Snær og Aðalsteinn eru í málflutningi sínum í dag enn á sama stað og þeir voru 2021 - í afneitun. Þeir leita ásjár dómstóla til að rétta hlut sinn í tapaðri umræðu.
Glæpur í tilfallandi huga reyndist afbrot í veruleika. Það þurfti ekki að giska, aðeins kynna sér málið og nennu til að halda áfram. Það síðast nefnda var erfiðast. Tilfallandi er latur að eðlisfari.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)