Rætur vælumenningar

Stefán Pálsson sagnfræðingur skrifar færslu á Facebook um fermingargjöf, eða ekki-fermingargjöf, sem hann fékk laust fyrir 1990. Færsluna má lesa sem augnabliksmynd af menningarástandi undir lok síðustu aldar. Gefum Stefáni orðið:

Á sínum tíma sleppti ég því að ferma mig. Það var verulega óvenjulegt fyrir krakka fæddan árið 1975. Reyndar vorum við fimm í bekknum mínum í Hagaskóla sem svona var ástatt um og við göntuðumst með að líklega hlyti þetta að vera heiðnasti bekkur á Íslandi. Þarna voru þrír strákar sem áttu foreldra sem höfðu verið í námi á Norðurlöndum og fannst ferming vera asnalegt fyrirbæri, ein bekkjarsystir sem var skráð í eitthvað furðufyrirbæri sem enginn hafði heyrt um og hét „borgaraleg ferming“ og svo ég sem var trúlaus...

Ekki-fermingargjöfin kemur við sögu síðar í færslu Stefáns. Gamall fjölskylduvinur, ,,kommúnisti og bókmenntamaður" frétti af staðföstu trúleysi Stefáns og hreifst af:

Gamli maðurinn varð ákaflega glaður þegar hann frétti að ég ætlaði ekki að láta ferma mig og um páskaleytið kom hann með bókastafla til mín í ekki-fermingargjöf.

Frásögn Stefáns má setja í samhengi við tvöfalda trúarþurrð undir lok síðustu aldar. Tvenn gildiskerfi, kristni og kommúnismi/sósíalismi, höfðu um hríð, í hundrað ár eða svo, att kappi. Annað hrundi með Berlínarmúrnum en hitt hélt áfram hægfara hnignun.  Gildiskerfi eru siðferðilegur og a.m.k. að hluta þekkingarlegur grunnur þeirra sem taka kerfin góð og gild.

Kristni er jafngömul tímatali okkar og ráðandi menningarstef í ýmsum tilbrigðum. Frá lokum miðalda þekkjum við kaþólsku og mótmælendatrú sem meginútgáfur. Eftir frönsku byltingunni á kristni í vök að verjast sem altækt lífsskoðunarkerfi. Vísindalegur sósíalismi var kynntur á 19. öld sem valkostur við kristni sem altæk heimsmynd. Í reynd veraldleg trúarbrögð.

Um miðbik 19. aldar kemur til sögunnar þróunarkenning Darwins sem útskýrir ,,vísindalega" tilurð lífs á jörðu. Kristni hélt þó menningarlegri stöðu sinni, þótt heimsmynd hennar léti á sjá. Tilfallandi, sem er 15 árum eldri en Stefán, fór upphátt með faðirvorið í fyrstu bekkjum barnaskóla Keflavíkur. Morgunbænin var jafn sjálfsögð og lýsið. Menn geta rétt ímyndað sér hvað gert yrði við kennara í dag er léti börn fara með kristilega bæn á hverjum morgni.

Þriðji þátturinn, auk hnignun kristni og hruns kommúnisma, sem lét á sér kræla undir lok síðustu aldar var sú von að eðlisfræðin væri um það bil að útskýra hinstu rök alheimsins. Strengjafræði, héldu menn fyrir 30 árum, myndi sameina almennu afstæðiskenningu Einstein og lögmál skammtafræðinnar. Það yrði til ein kenning um alheiminn og smæstu agnir hans. Eðlisfræði, eins og menn vita, fæst ekki við almætti - nema þá alveldi efnisins. Vísindalegar sannanir virtust á næsta leiti er myndu leiða manninn í fagra nýja veröld.

Stefán og kynslóð hans var í kjörstöðu að ávaxta sitt menningarpund undir öðrum og nýrri formerkjum en hafði tíðkast. Engin kynslóð byrjar með hreint borð; fær góss fortíðar inn í samtíð sína. Kynslóðin á undan, kennd við 68 og hippamenningu, var merkisberi frjálslyndis og uppreisnar gegn ráðandi millistéttarmenningu eftirstríðsáranna. Um 1990 má setja skil. Eitt gildiskerfi hrynur og annað er á flótta.

Hvað kom í staðinn? Ekki vísindaleg niðurstaða um hvernig réttast væri að haga mannlífinu.

Upp úr hattinum kom vók.

Tvær meginhugmyndir vóksins eru loftslagsvá af mannavöldum annars vegar og hins vegar trans. Sú þriðja er að hvítir karlmenn, einkum þeir miðaldra, séu helstu óvinir mannkyns, bæði í sögu og samtíma.

Líkt og marxismi fyrrum segist trúflokkur hamfarasinna byggja heimsendaspár á vísindum. Manngerður koltvísýringur, CO2, ku valda loftslagsvá. Koltvísýringur í andrúmslofti er 97 prósent náttúrulegur - maðurinn ber aðeins ábyrgð á 3%. Heimsendaspámenn kenna að þessi þrjú prósent sem maðurinn er ábyrgur fyrir ráði ferðinni í veðurkerfum. Þau 97% sem náttúran skaffar séu loftslagshlutlaus. Náttúran er meðvitundarlaus. Hún gerir ekki upp á milli koltvísýrings úr bensínvél og eldgosi við Grindavík. Náttúran hagar ekki málum þannig að 97 prósent koltvísýrings hafi engin áhrif á loftslag en þau 3% sem maðurinn veldur skipti sköpum. Meðvitundarlaus náttúra er rökvísari en loftslagsmarxistar sem eiga að heita vitundarverur.

Trans byggir á þeirri forsendu að sumir fæðist í röngu kyni. Transarar útskýra aldrei hvernig hægt er að fæðast í röngum líkama. Enda er það ekki hægt. Enginn fæðist í röngu kyni, punktur. Aftur eru þeir til sem vilja skipta um kyn. Ástæðurnar eru margvíslegar en koma sjaldnast heim og saman við heilbrigða dómgreind. Trúarstefið, að hægt sé að fæðast í röngu kyni, er notað til komast hjá að útskýra hvers vegna einhver vill vera annað en hann er. Flóttinn frá sjálfinu er dulbúinn sem sigur einstaklingsins yfir inngripum æðri máttarvalda er setja ranga meðvitund í réttan líkama eða öfugt, rétta meðvitund í rangan líkama. Vúdú-fræði á öld samfélagsmiðla.

Nýguðfræði vóksins kom eftir trúarþurrð kristni og kommúnisma. Ólíkt kristni og kommúnisma eru hvorki hamfaratrú né trans sjálfstæð gildiskerfi. Vókið i heild sinni er aðskiljanleg sérviska fárra sem nýttu sér nýja samskiptatækni í byrjun aldar, samfélagsmiðla, til að skapa upplýsingaóreiðu, þar sem hvítt varð svart. Alþjóðlegar stofnanir, s.s. Sameinuðu þjóðirnar, tóku firrurnar, einkum loftslagsvá, upp á sína arma. Útbreiðsla sérviskunnar steytti lítt á skerjum eldri gildiskerfa sem voru komin að fótum fram.

Of snemmt er að spá endalokum vóksins. Vælumenningin er víða orðin hagvön, ekki síst í háskólum. Sérvisku skortir þó iðulega úthald til að marka varanleg spor í sögulega framvindu. 

Strengjafræðin, sem vísað var til hér að ofan, stóð ekki undir þeim væntingum að útskýra heiminn í einni setningu. Á meðan ekki er ein kenning um efnisheiminn er orðið laust margvíslegri sérvisku. Ein leið til að halda sönsum er að gjalda varhug við nýmælum lukkuriddara;  horfa yfir farinn veg og meta hvað virkaði áður og hvað ekki. Spyrja um forsendur og rök þeirra sem bera fram nýsannindi. Kallast íhaldssemi. 

 


Bloggfærslur 8. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband