Borgaralegar hvalveiðar

Borgaraleg sjónarmið réðu ferðinni er Bjarni Ben. forsætis- og matvælaráðherra leyfði hvalveiðar. Atvinnuvegurinn var í gíslingu sérvisku vinstrimanna, sem eru andstæð borgaralegu gildismati.

Síðustu daga er umræða um borgaraleg stjórnmál og hvernig þau skilja sig frá sérvisku vinstrimanna. Útgáfa á leyfi til hvalveiða er dæmi um borgaralega stefnumótun andspænis vók-pólitík.

Veiðileyfið hvílir á ,,ráðgjöf Haf­rann­sókna­stofn­un­ar sem bygg­ir á sjálf­bærri nýt­ingu og varúðarnálg­un," segir í viðtengdri frétt. Hvalir eru nytjastofn líkt og spendýr á landi, nautgripir og sauðfé. Afurðir eru verðmæti, einkum matvæli.

Andspænis borgaralegu gildismati standa sérviskusinnar, einkum vinstrimenn, sem telja hvali til æðri dýrategunda. Það hlálega er að sumum í röðum sérviskusinna finnst réttlætanlegt að eyða mennsku fóstri fram á síðasta dag meðgöngu en sofa ekki á nóttinni vegna afdrifa kálfa hvala sem eru nytjaðir.

Dýravernd er í sinni sígildu útgáfu, t.d. um mannúðlega meðferð sláturdýra, góðra gjalda verð. En vinstra-vókið fer langt fram úr heilbrigðri skynsemi og krefst algerrar verndunar viðurkenndra nytjastofna, s.s. hvala. Engin málefnaleg rök fylgja tilbeiðslu á tilteknum spendýrum - enda tilbeiðsla í eðli sínu huglæg en ekki hlutlæg.

Borgaraleg afstaða er að hver og einn hafi fullan rétt á sinni sérvisku og tjá hana í ræðu og riti. Á hinn bóginn verður samfélagið að starfa eftir almennum sjónarmiðum sem byggja á hefð, málefnalegum rökstuðningi og meðalhófi.

Sérviskan hverfist iðulega, en ekki alltaf, um öfgar af einhverju tæi. Í grunninn er um pólitíska útfærslu á ævintýri HC Andersen um fjöðrina sem varð að fimm hænum eftir ferðlag um kjaftakvarnir vinstrimanna. Sérviskumál, t.d. loftslagsvá, trans og tilbeiðsla á hvölum, verða að pólitískum baráttumálum með vel heppnuðum slúðurherferðum. 

Uppgangur sérviskumála á þessari öld er í skjóli stökkbreytingar í samskiptum manna og miðlun upplýsinga sem varð með netinu og samfélagsmiðlum. Sérvitringarnir nýttu tækifærið og skópu upplýsingaóreiðu til að komast framhjá málaefnalegri umræðu og knýja fram niðurstöðu mála í krafti múgræðis á netinu.

Tvennt breytist á síðustu misserum og árum. Í fyrsta lagi að almenningur lærir að lifa með múgræðinu í netheimum, finnur leiðir til að skilja hismið frá kjarnanum. Í öðru lagi að þeir borgaralegu þenkjandi, vonum seinna, gáfu sér tíma í netumræðuna á sínum forsendum. Þar sem áður var allsráðandi vinstrisérviska er komið meira jafnvægi. Slúðurherferðir sérviskunnar á samfélagsmiðlum eiga erfiðara uppdráttar.

 

 

 

 


mbl.is Bjarni veitir hvalveiðileyfi til fimm ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband