Miðvikudagur, 4. desember 2024
Annað Hölluaugnablik: valkyrjustjórn til hægri
Þorgerður Katrín grillar á daginn og fær afskrifaðar skuldir á kvöldin; Kristrún trúir á lottóvinninga efnamanna og borgar ekki tekjuskatt; Inga hafnar klósettransinu, krefst kyngreindra rýma til að konur fái frið fyrir perrum.
Við fáum valkyrjustjórn til hægri, gangi það fram að Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins nái saman um meirihluta á alþingi.
Í forsetakosningunum í sumar varð Hölluaugnablik á kjördegi. Aðskiljanlegir vinstrihópar sem gefið þótti að kysu Katrínu fyrrum forsætisráðherra sneru við blaðinu og gáfu Höllu Tómasdóttur atkvæði sitt. Hægrikona varð forseti. Sama gerðist í þingkosningunum. Fýlufylgið á vinstrivængnum sneri baki við Vinstri grænum, Pírötum og Sósíalistaflokknum og kaus Flokk fólksins sem er lýðhyggjuflokkur til hægri.
Konur í forystu fyrir þriggja flokka hægristjórn er stórmerkilegt nýmæli. Algengasta mótbáran við hægristjórn undir karlaforystu er að þar fari holdtekja feðraveldisins. Mæðraveldi verður ekki sakað um feðrahyggju. Gagnrýnin verður að vera ögn málefnalegri og minna byggð á alhæfingum.
Á alþingi verður valkyrjustjórnin ekki gagnrýnd frá vinstri. Enginn flokkur á alþingi er til vinstri við Samfylkinguna. Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur munu halda valkyrjustjórninni við efnið í efnahagsmálum, einkum ríkisútgjöldum. Kristrún og Þorgerður Katrínu eru líklega hófsamari á útgjaldahliðinni en Inga, en trúlega ekki meira en svo að hægt sé að ná málamiðlun. Skattlækkanir verða tæplega á dagskrá og brýn tiltekt í ríkisrekstri bíður betri tíma.
Fyrsta prófraun á raunsæi valkyrjustjórnarinnar verða Evrópumál. Verði þau sett á dagskrá virkjast sjálfkrafa öflug hreyfing fullveldissinna sem mun allt gera til að grafa undan nýmyndaðri ríkisstjórn.
Tilfallandi sagði Flokk fólksins óstjórntækan en étur glaður þau orð ofan í sig, verði valkyrjustjórnin að veruleika - og haldi út kjörtímabilið. Ef gefið er að Inga hafi það taumhald á sínum þingflokki, sem þarf til að tryggja starfsfrið, eru líkur á að barn verði í brók þeirra Kristrúnar, Þorgerðar Katrínar og Ingu. Gangi þeim allt í haginn.
Það er verið að kalla eftir okkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)