Fjölmiðlar: Sjálfstæðisflokkurinn er ráðandi í pólitík

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins, hvort hann verður haldinn í febrúar, maí eða september, er tilefni raðfrétta í stærstu fjölmiðlum landsins síðustu þrjá daga. Vísir birtir níu fréttir og RÚV fjórar um tímasetningu landsfundar.

Skilaboð raðfréttanna eru að tímasetning landsfundar Sjálfstæðisflokksins sé brýnna og mikilvægara en stefnumið og verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar. Ruðningsáhrif raðfrétta Vísis og RÚV eru slík að Morgunblaðið fjallar einnig um ótímasettan landsfund í fjórum fréttum.

Merkilegt er að sjá fréttabál kveikt sem þjónar ákveðnum tilgangi en endar með að vinna gegn markmiði sínu. Vísir reið á vaðið og gerði því skóna að samsæri væri í undirbúningi um að fresta landsfundi, svona eins og Kastró á Kúbu frestaði jólunum hér um árið. RÚV fylgdi í humátt á eftir og bætti sprekum á fjölmiðlabálið. Morgunblaðið, almennt hlynnt Sjálfstæðisflokknum, gat ekki setið hjá og birti fréttir um sama mál en undir öðrum formerkjum. 

Sjálfstæðismenn mega vel við una. Fjölmiðlar eru sannfærðir um að vöxtur og viðgangur Sjálfstæðisflokksins er meginmál stjórnmálanna. Þegar Lilja Alfreðsdóttir nánast segir berum orðum að hún ætli í framboð gegn sitjandi formanni Framsóknarflokksins er það aukasetning í einni frétt.

Fyrir nýja ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hlýtur að vera nöturlegt að lesa svart á hvítu hve fjölmiðlar telja hana ómerkilega. Í stjórnarmyndunarviðræðum var fjöldi frétta um kvenpersónurnar þrjár sem um véluðu. Sagt var frá stjórnarsáttmálanum og lyklaafhendingu í stjórnarráðinu. Síðan ekki sögunni meir. Sjálfstæðisflokkurinn yfirtekur allar fréttir af pólitískum vettvangi.

Fréttaflutningurinn veit ekki á gott fyrir Kristrúnarstjórnina. Fjölmiðlar segja undir rós að ný ríkisstjórn sé sviplaus og óspennandi valkostur við raunverulegt stjórnmálaafl sem skekur land og þjóð sé ekki á kristalstæru hvenær landsfundur þess verði haldinn.

Dvergflokkarnir áttu sína stund. Í þessu tilviki tæpa viku. Þá vöknuðu fjölmiðlar upp með andfælum og áttuðu sig á að Sjálfstæðisflokkurinn var utan stjórnar og óvissa væri hvenær landsfundur yrði haldinn. Blaðamenn voru ræstir út á aukavaktir, símar rauðglóandi og tölvupóstar sendir fram og tilbaka. Þrír stærstu fjölmiðlar landsins rigguðu upp 17 fréttum á hálfum þriðja sólarhring um mál málanna: hvenær verður landsfundur Sjálfstæðisflokksins haldinn?   


Bloggfærslur 30. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband