Bjarni hlynntur frestun, Gulli formennsku

Bjarni Ben. formaður Sjálfstæðisflokksins telur rök standa til að fresta landsfundi, sem ráðgerður er í febrúar. Guðlaugur Þór hafnar á RÚV frestun landsfundar. Á síðasta landsfundi skoraði Guðlaugur Þór Bjarna á hólm en tapaði stórt í formannskjöri, hlaut 40% atkvæða en Bjarni 59%.

Guðlaugur Þór er hvergi að baki dottinn. Hann gefur sterklega til kynna á RÚV að hann ætli í annað sinn að gera atlögu að formennsku Sjálfstæðisflokksins. Óvíst er hvort Bjarni gefi kost á sér til endurkjörs.

Guðlaugur Þór metur það hagfellt sínu framboði að halda landsfund sem fyrst. Stutt er frá kosningum. Úrslitin voru ekki það stórtap sem flokkurinn stóð frammi fyrir í upphafi kosningabaráttunnar. Hægt er að tala um varnarsigur eftir sjö ára stjórn með Vinstri grænum. Sé haft í huga að ákvörðun Bjarna formanns um haustkosningar ruddi af alþing bæði Pírötum og Vinstri grænum er meintur varnarsigur í reynd stórsigur. Róttækasta aflið á alþingi er núna einkaflokkur Ingu Sæland, íhaldssamari í samfélagsmálum en Sjálfstæðisflokkurinn.

Stjórnmálaflokkar byggja á sögu og málefnum. En mótandi fyrir pólitík stjórnmálaflokka hverju sinni eru samtímaaðstæður. Ráðandi fyrir pólitískar aðstæður hér á landi nú um stundir og sennilega næstu misserin er ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins.

Ríkisstjórn Kristrúnar var mynduð rétt fyrir jól. Í febrúar verður engin reynsla komin á hana, heldur ekki í vor. Næsta haust verður hægt að móta árangursríkt andsvar við pólitík kvennaþríeykisins. Þá en ekki fyrr er skynsamlegt að draga stóra ályktanir um stjórnmáþróun næstu missera.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í febrúar næst komandi verður illa í stakk búinn að leggja málefnagrunn sem yrði valkostur við áherslur sitjandi stjórnar. Eftir tvo mánuði hylur nýjabrumið enn pólitískt inntak stjórnarstefnunnar.

Ákveði Bjarni að hætta í pólitík eftir farsælan feril eru þrjár konur helst nefndar sem arftakar, auk Guðlaugs Þórs. Þær eru Áslaug Arna, Guðrún Hafsteins og Þórdís Kolbrún. Aðrir gætu bæst í hópinn. Bjarni ætlar að segja af eða á fljótlega eftir áramót. Stutt og snörp kosningabarátta hentar Guðlaugi Þór prýðilega en öðrum síður.

Febrúar er í febrúar, segir djúpíhugull Gulli í RÚV-viðtalinu. Jafnvíst er að flas sé ekki til fagnaðar.


mbl.is Skiptir mestu að koma málefnalega sterk af landsfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband