Fimmtudagur, 26. desember 2024
Guð, maður og vél
Hlutlaust samfélag er tæpast til, segir Guðrún Karls Helgudóttir biskup. ,,Guðleysi er nefnilega ekki hlutleysi frekar en trú," er haft eftir biskupi. Hér er tæpt á málefnum sem ekki eru öll þar sem þau eru séð.
Viðurkennd mannréttindi eru að hver og einn má hafa hverja þá skoðun sem vera skal um lífið og tilveruna. Að tjaldabaki ríkir þó stigveldi skoðana sem hafnar jafnrétti ólíkra sannfæringa.
Eignarétturinn byggir á þeirri skoðun að menn eiga rétt eigna sinna. Samfélagið samþykkir ekki rétt þeirra sem eru andstæðrar skoðunar og haga lífi sínu til samræmis; taka hluti ófrjálsri hendi. Málsvörn þjófs, að hann viðurkenni ekki eignaréttinn, er ógild og að engu hafandi.
Samfélagið í einn stað heimilar hvaða sannfæringu sem vera skal en í annan stað takmarkar það rétt manna til að hrinda sannfæringunni í framkvæmd. Aðeins þeim skoðunum, vel að merkja, sem hindra nauðsynlega virkni samfélagsins, til dæmis þeirrar er lýtur að skiptingu efnislegra gæða. Um óefnisleg verðmæti eins og lífsskoðanir gilda mannréttindin í öllu sínu veldi, sérhver má þar syngja með sínu nefi. Engri lífsskoðun má hafna, það telst mannréttindabrot.
Til skamms tíma naut kristni, og önnur trúarbrögð í leiðinni, nánast sömu stöðu og eignarétturinn. Menn máttu vera trúlausir en áttu ekki að básúna sannfæringuna. Trúlaus varð að haga sér eins og þjófur að nóttu. Hæðni og spott í garð trúaðra var litið alvarlegum augum. Lög um guðlast voru ekki afnumin fyrr en um miðjan síðasta áratug.
Eignarétturinn er mannasetning, kemur ekki frá almættinu. Guðstrú, samkvæmt skilgreiningu, sækir sinn tilverurétt í eilífðina, sanninda sem ekki eru mannsins að véla um, í mesta lagi að túlka.
Svo vikið sé beint að orðum Guðrúnar biskups búum við ekki í gildislausu samfélagi. Veraldarhyggja er ráðandi sjónarmið. Eins og hún sjálf segir: trú er ,,einkamál."
Það má skilja orð biskups sem eftirsjá eftir þeim tíma þegar kristni var líflegri þáttur í menningunni en hún er í dag. Ekki er ólíklegt að fleiri deili þeirri skoðun. Afleiðingarnar af hnignun kristni er mörgum þungbær, einkum sú sem kallast siðferðisleg afstæðishyggja.
Mannréttindi, sem í grunnin byggja á kristinni menningu, eru helsta ástæða hnignunar guðstrúar. Þegar hver og einn hefur fullt frelsi til að skilgreina sjálfan sig og heiminn í kringum sig eftir eigin höfði hverfur sú undirstaða sem guðstrú er reist á; að maðurinn sé ekki eigin orsök. Veraldleg mannréttindi leiða til þess að hver og einn verður sjálfum sér guð. Fellur eins og flís við rass að veraldarhyggjunni um að trú sé einkamál. Sjálfsdýrkun fylgir blygðun. Til að sigrast á feimninni eru stofnuð samtök um sjálfsdýrkunina og hún sögð ,,leiðrétting" á sköpunarverkinu.
Eftirspurn er eftir kenningum sem réttlæta þá hugsun að maðurinn sé eigin orsök. Vitvélar, stundum kenndar við gervigreind, eru sagðar á þröskuldi þess að verða mennskar. Það litla sem vantar upp á er meðvitundin. Með talvélum, chatgpt, er kominn vísir að meðvitund ef hún þykir ekki þegar fullveðja. Vitvélar geta lært af mistökum og endurnýjað sig. Er ekki tímabært að þær fái sama þegnrétt og maðurinn? Er einhver munur á manni og vél þegar um bæði gildir að þau skilgreina sig sjálf eftir hentugleikum?
Þegar óverulegur eða enginn munur verður á manni og vél er úti um öll mannréttindi. Dauðir hlutir fá réttindi sem áður voru fæðingargjöf mannsins. Komi til þess, í fjarlægri framtíð, að einhver sannanlega mennskur spyrji sig hvenær siðmenningin hrökk af hjörunum verður svarið þetta: þegar maðurinn í nafni mannréttinda varð að vélmenni.
Biskup: Guðleysi er ekki hlutleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)