Snorri skýri og Jóhannes vók

Snorri Másson nýkjörinn þingmaður Miðflokksins reit Morgunblaðsgrein til stuðnings málfrelsinu. Alltof sjaldan láta þingmenn sig varða tjáningarfrelsi almennra borgara. Oft er þörf en nú er nauðsyn. Þrír borgarar, sem hafa andmælt transáróðri í leik- og grunnskólum, sæta lögreglurannsókn og ákæru, tilfallandi þar á meðal. Nánar um það á eftir.

Jóhannes Þór Skúlason talsmaður ferðaþjónustu og nú líka transinnrætingar var ekki ánægður með framlag Snorra skýra heldur ,,sár og svekktur". Eins og það skipti máli hvort einhver vælukjói móðgist þegar skipst er á skoðunum. Í Facebook-færslu sem varð að frétt á Vísi segir Jóhannes Þór til varnar lögregluafskiptum af frjálsri umræðu:

Það er grundvallarþáttur í tjáningarfrelsinu að fólk ber ábyrgð á orðum sínum. Samtökin 78 telja að þessi orð sem þú vísar til í greininni séu til þess fallin að ýta undir andúð og jafnvel ofbeldi gegn trans fólki í samfélaginu. Þess vegna eru ummælin kærð. Sú kæra fær svo umfjöllun í kerfinu samkvæmt reglum réttarríkisins. Er það ekki einmitt þannig sem það á að virka?

Nei, Jóhannes vók, kerfið á ekki að virka þannig að lífsskoðunarfélag á opinberu framfæri geti kallað á lögregluna og krafist bannfæringar á andstæðum sjónarmiðum. Huglæg upplifun eins á ekki að takmarka mannréttindi annars.  Væluvókið er yfirþyrmandi í þeim orðum Jóhannesar að frjáls umræða ýti ,,undir andúð og jafnvel ofbeldi gegn trans fólki". Andmæli gegn fávisku, eins og að hægt sé að fæðast í röngum líkama, eiga fremur að fá verðlaun en ákæru í sæmilega heilbrigðu samfélagi.

Ríkissaksóknari er í rassíu gegn frjálsri orðræðu á Íslandi um transmálefni. Samtökin 78 etja ríkissaksóknara á foraðið með kærum. Tilfallandi var ákærður í haust og bíður réttarhalda og dóms. Eldur Smári Kristinsson var boðaður í yfirheyrslu lögreglu í kosningabaráttunni og bíður ákæru. Þriðji einstaklingurinn, sem hafði vogað sér að andmæla transáróðri í skólum, hefur verið kallaður til yfirheyrslu lögreglu og bíður ákæru. Við þrjú höfum það eitt til saka unnið að skrifa gegn bábiljufræðum trans. Fyrir þá sök stöndum við frammi fyrir allt að tveggja ára fangelsi, samkvæmt lagagreininni sem ákært er fyrir brot á, gr. 233 a hegningarlaga.

Það er ótækt að vænisjúk lífsskoðunarfélög geti sigað lögreglu og ákæruvaldi á frjálsa borgara með sjálfstæðar skoðanir. Allir þingmenn vita þetta og þeir ráða lögum landsins. Aðeins Snorri skýri er nógu hugaður að segja það upphátt. Tilfallandi tekur hatt sinn ofan fyrir nýkjörnum þingmanni Miðflokksins.


Bloggfærslur 20. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband