Ákall Samfylkingar 1,4% stærra en íhald Sjálfstæðisflokks

Kristrún formaður segir fylgisaukningu Samfylkingar ákall um breytingar. Flokkurinn fékk 20,8% atkvæða. Kjósendur verðlaunuðu Sjálfstæðisflokkinn með litlu minna fylgi, 19,4%. Sjálfstæðisflokkurinn er með 11 ára samfellda sögu í ríkisstjórn, frá árinu 2013.  

Krafa um breytingar sem er 1,4 prósent stærra en ósk um óbreytt ástand, íhald, er ósannfærandi, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Kristrún sagðist vera með ,,plan". Aðeins einn af hverjum fimm kjósendum kusu krataplanið - hvað sem það nú annars er. 80 prósent kjósenda sögðu nei, takk, við höfum ekki áhuga.

Verkefni Kristrúnar og Samfylkingar er ekki að breyta Íslandi. Niðurstaða kosninganna í fyrradag er krafa um óbreytt ástand. Öfgaflokkar, þ.e. Píratar, Sósíalistar og Vinstri grænir fengu háðulega útreið. Engan þingmann kjörinn.

Kjósendur, í visku sinni, létu sér ekki nægja að slátra öfgaflokkum heldur gættu þeir þess að dreifa atkvæðum sínum á þá flokka sem hlutu náð fyrir augum þeirra í anda meðalhófsins. Tveir flokkar eru stærstir, án þess að vera stórir, Samfylking og Sjálfstæðisflokkur. Þar á eftir koma þrír millistórir flokkar með 12-16 prósent fylgi; Viðreisn, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn. Lestina rekur elsti stjórnmálaflokkur landsins, sem íhaldssamir kjósendur leyfðu að hökta með til að slíta ekki sögulega samfellu. Framsókn fékk 7,8%.

Skilaboð kjósenda er að þeim hugnist best hófstillt miðhægristjórn.

Verkefni Kristrúnar formanns er að draga réttar ályktanir af vilja kjósenda annars vegar og hins vegar að leggja sitt af mörkum til ábyrgs meirihluta á alþingi, sem líklegur er til að halda út kjörtímabilið.

Kristrún innbyrðir ekki kosningasigurinn fyrr en hún myndar trausta meirihlutastjórn. Áherslan er á traust. Samstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er dautt mál. Eldhúsflokkur Ingu Sæland er uppreisnarlið, ótækt í ríkisstjórn. Besti kosturinn er stjórn Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Miðflokks. Sé Miðflokkurinn ekki nógu hugþekkur krötum er Framsókn næst besti kosturinn.  Þriðji raunhæfi kostur Kristrúnar er samstjórn Samfylkingar, Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. En sjálfstæðismenn græfu eigin gröf í þeirri ríkisstjórn.

Kristrún hefur ekki langan tíma, nokkra daga. Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Miðflokkur gætu myndað meirihlutastjórn. Þorgerður Katrín yrði drottningin en Kristrún glimmerdaman sem enginn bauð upp á ballinu.

 

 

 


mbl.is Kristrún fyrst á fund forseta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband