Mannvirðing, kynfölsun og kirkjan

Mannvirðing og mannhelgi haldast í hendur í yfirlýsingu Páfagarðs frá í vor, Dignitas Infinita. Yfirlýsingin er niðurstaða fimm ára umræðu kaþólsku kirkjunnar. Mannvirðing felur í sér fjóra þætti, þar sem einn er mikilvægastur, sá verufræðilegi. Verufræði, ontólógía á útlensku, vísar til þess sem er. Þjálla er á íslensku að tala um hlutveruleika mannsins fremur en verufræði.

Hlutveruleiki mannsins er hann er í tveim kynjum, karli og konu. Í senn er það náttúrulegur veruleiki og trúarlegur. Guð skapaði manninn í sinni mynd, karl eða konu. Þá er maðurinn, samkvæmt yfirlýsingu Páfagarðs, sjálfráð skynsemisvera.

Mannvirðing er gefin við fæðingu og óframseljanleg. Úthlutun á mannvirðingu fæli í sér að hún væri afturkræf - en það er hún ekki. Í yfirlýsingu Páfagarðs er mannvirðing mátuð við samtíma okkar, þar á meðal kynjafræði, gender theory, og kynfölsun, sex change. Í tölusettri yfirlýsingu er um að ræða greinar 55-60.

Kynjafræði er ,,hugmyndafræðileg nýlendustefna" segir þar og er sérstaklega hættuleg enda hafnar kynjafræðin náttúrulegri aðgreiningu mannsins í karl og konu. Kynjafræði setur persónulegt sjálfræði ofar þeim meginsannindum að lífið er gjöf. Kynjafræðin fellur í forna freistingu, gerir manninn að guði í samkeppni við hinn eina sanna kærleiksríka guð ritningarinnar.

Karl og kona eru hluti sköpunarverksins er kemur á undan reynslu okkar og ákvörðunum. Líffræðilega eðlisþætti er ekki hægt að sniðganga. Aðeins með viðurkenningu á þessum grunnsannindum getur manneskjan að fullu uppgötvað sjálfa sig, öðlast sjálfsvirðingu og sjálfsvitund.

Maðurinn er óaðskiljanlegur í líkama og sál. Líkaminn er efnisform sálarinnar. Líkami og sál eru samstofna mannvirðingunni. Kynbreyting er, samkvæmt Páfagarði, fölsun á frumverund mannsins. Athygli vekur að páfadómur eyðir ekki orðum í þá fásinnu transfræða að hægt sé að fæðast í röngum líkama. Hér á Fróni kenna Samtökin 79 bábiljuna í leik- og grunnskólum með leyfi og vitund fræðsluyfirvalda.

Nokkur umfjöllun var í erlendum fjölmiðlum í vor, eftir yfirlýsingu Páfagarðs. Tilfallandi tæpti á tveim slíkum. Ekki varð vart við að íslenskir fjölmiðlar gæfu yfirlýsingunni gaum. 

Íslenska þjóðkirkjan er á öðru róli en móðurkirkjan. Í Róm er ígrundað um manneðli, veruleika og trúarsannfæringu. Biskupinn í Reykjavík stundar geðþóttaguðfræði í anda sérgæskunnar; ég á þetta, ég má þetta.


Bloggfærslur 17. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband