Pútín, tvær frásagnir og Trump

Tvær meginfrásagnir eru af Úkraínustríðinu. Í einn stað að Úkraína sé stökkpallur Pútíns og Rússa inn í önnur Evrópuríki þar sem stefnt sé að endurreisn rússneskra keisaradæmisins ef ekki sjálfra Sovétríkjanna. Í annan stað að Rússar séu að verja öryggishagsmuni ríkisins með því að koma í veg fyrir að Úkraína verði Nató-ríki.

Fyrri frásögnin er ráðandi á vesturlöndunum og að mestu leyti röng. Seinni frásögnin fer nærri lagi, þótt ekki megi gera lítið úr áhuga Rússa að tryggja hagsmuni sína í nærsveitum Úkraínu að stríði loknu, - meira um það á eftir. Fáar vísbendingar eru um löngun Rússa að leggja undir sig nærliggjandi ríki, t.d. Eystrasaltsríkin. Úkraínudeilan hófst eftir Búkarestfund Nató 2008 er Úkraínu og Georgíu var boðin Nató-aðild. Pútín og Rússar sættu sig ekki við að slíka ógn við öryggishagsmuni sína.

Nú kynnu einhverjir að segja að þótt Rússar hafi ekki sýnt löngun að leggja undir sig nágrannaríki gæti það breyst eftir árangursríkt Úkraínustríð. Möguleikinn er fyrir hendi en hann er langsóttur. Úkraínustríðið sýnir að Rússar eiga fullt í fangi með meðalstórt Evrópuríki. Í byrjun ágúst í ár gerðu Úkraínumenn innrás í Kúrsk-hérað og tóku töluvert land. Úkraínumenn sitja enn í Kúrsk og hafa hugsað sér að nota landvinninga sína þar í væntanlegum friðarsamningum. Þeir norður-kóresku hermenn, sem fjallað er um í viðtengdri frétt, berjast í Kúrsk-héraði, rússnesku landi, og eru ekki í ,,árásarliði Rússa" inn í Úkraínu, þótt fyrirsögn mbl.is gefi það til kynna.

Ef Rússland væri það heimsveldi sem af er látið myndu þeir ekki sætta sig við hertöku eigin lands í fimm mánuði. Ekki þyrftu þeir að leita á náðir Norður-Kóreu til að frelsa rússneskt land úr klóm óvinarins - væri Rússland heimsveldi, sem það er ekki. Ráði Rússar ekki við úkraínska herinn án utanaðkomandi aðstoðar dettur engum í hug að Rússar geti barist við samanlagða heri Nató.

Útreið bandamanns Rússa í Sýrlandi, Assad forseta, gefur ekki til kynna máttugt heimsveldi. Rússland er veldi í sama skilningi og Frakkland og Þýskaland, en kemst ekki með tærnar þar sem Bandaríkin hafa hælana. Nema á einu sviði, og það skiptir máli. Rússar eiga kjarnorkuvopn, sem kannski ekki eru á pari við þau bandarísku, en nógu öflug til að skjóta mönnum skelk í bringu.

Úkraínustríðinu lýkur með friðarsamningum en ekki uppgjöf Úkraínu. Rússar eru ekki með herstyrk til að leggja landið allt undir sig, hafi þeir áhuga, sem er óvíst.  Trump, sem tekur við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar, hefur sagst ætla að binda endi á stríðið. Bandaríkin fjármagna og hervæða Úkraínu að stærstum hluta. Án stuðnings Bandaríkjanna er Úkraínu allar bjargir bannaðar. Spurningin er hvernig verði staðið að stríðslokum eftir að Trump sest í Hvíta húsið.

Ein tillaga, sem er til umræðu, er að frysta stríðið, binda endi á átök þar sem víglínan liggur núna. Í framhaldi yrði boðað til friðarráðstefnu. Fjölþjóðaher, í umboði Sameinuðu þjóðanna, myndi gæta þess að hvorugur aðili neytti færis að bæta hag sinn á meðan vopnahlé og friðarsamningar stæðu yfir.

Austurríski ofursteinn Markús Reisner kemur reglulega fram í þýskumælandi fjölmiðlum sem álitsgjafi um Úkraínustríðið og er að auki að finna á Youtube. Í samtali við Die Welt ræddi Reisner hugmyndina að frysta víglínuna. Hann segir að víglínan sé um 1200 km löng og gott betur. Til að gæta friðar þyrfti líklega 100-150 þúsund manna herlið. Enginn slíkur fjölþjóðaher er til reiðu. Marga mánuði tæki að skipuleggja úrræðið. Af þeirri ástæðu einni er ólíklegt að úr verði.

Ýmsar aðrar hugmyndir eru ræddar, t.d. að Trump hóti Rússum að stórefla stuðning við Úkraínu, fallist Pútín ekki á friðarviðræður. Rússum hefur áður verið hótað með litlum árangri.

Á meðan engin raunhæf tillaga er um að binda endi á átök heldur stríðið áfram. Fyrir utan árangur Úkraínu í Kúrsk eru Rússar með yfirhöndina og vinna jafnt og þétt úkraínskt land þótt ekki fari þeir hratt yfir.

Raunhæf tillaga um stríðslok í Úkraínu verður að fela í sér endurkomu Rússlands í samfélag meginlandsríkja Evrópu og þar með vesturlanda. Á meðan vestrið er ekki tilbúið að éta ofan í sig ráðandi frásögn um heimsvaldastefnu Pútíns eru litlar líkur á raunhæfri friðartillögu. Orðspor of margra valdamanna í vestrinu er í húfi. Ekki þó Trump, sem gæti riðið baggamuninn.


mbl.is Norðurkóreskir hermenn í árásarliði Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband