Inga vill eyða, Kristrún sýna aðhald, Tobba Kata þegir

Í fyrradag sagði Inga Sæland formaður Flokks fólksins að daginn eftir yrði rætt um skiptingu ráðuneyta í væntanlegri ríkisstjórn með Viðreisn og Samfylkingu, sem yrði líklega mynduð fyrir jól. Aftur sagði Kristrún formaður Samfylkingar í gær að ekki væri byrjað að ræða ráðherradóm og nefndi áramótin sem fæðingardag nýrrar stjórnar.

Smávegis misræmi er á milli formannanna um dagskrá viðræðna og hvenær þeim ljúki. Þriðji formaðurinn sem á aðild, Þorgerður Katrín í Viðreisn, segir ekkert síðustu tvo daga. Fæst orð bera minnsta ábyrgð.

Í viðtalinu við Ingu, sem vitað er í hér að ofan, veltir hún fyrir sér jólagjöfum sem hún geti fært ,,fólkinu sínu", eins og henni er tamt að tala. Til dæmis að gera tekjur undir 450 þús. skattfrjálsar. Inga segist trúa á mátt kærleikans, sem er falleg hugsun, en borgar ekki skuldir, hvorki ríkissjóðs né annarra. Kristrún, í viðtengdri frétt, segist hafa áhyggjur af ríkisfjármálum. Hagfræðingurinn ögn raunsærri en kærleikskonan.

Ef gefið er, sem þó er alls ekki víst, að formennirnir haldi þingflokkum sínum upplýstum um framgang viðræðna eru 30 manns með eyrun nærri vettvangi. Þingmönnum, bæði gömlum og nýjum, finnst gaman að kjafta, - annars væru þeir ekki stjórnmálamenn. En samt fréttist ekkert hvað konurnar þrjár ræða. Meira hvað ekki er rætt; ekki Evrópumál, ekki skipting ráðuneyta, ekki útlendingamál.

Tilfallandi hefur sterkan grun um að fiskur liggi undir steini. Verið er að kaupa tíma með viðræðuleikriti án innihalds. Eftir sniðugheit um valkyrjurnar þrjár í svefngalsa kosninganætur sest inn alvara hversdagsins. Samfylkingarmenn hafa vara á popúlískum eyðsluflokki, sem gæti fyrirvaralaust slitið stjórnarsamstarfi í kærleiksríku tilfinningaflóði. Kristrún veit að tapi hún tiltrú í ríkisfjármálum er endursköpun flokksins síðustu ára farin í hundana. Þorgerður Katrín kynntist völtu veraldargengi meirihluta er Björt framtíð sprengdi ríkisstjórnina 2017, eftir átta mánaða samstarf. Sporin hræða.

Ekki brutust út fagnaðarlæti er tilkynnt var um viðræður stallsystranna. Engin mótmæli þó enda ósiður að andæfa niðurstöðum lýðræðislegra kosninga. Þá daga sem stjórnarmyndun hefur staðið yfir er ekki merkjanleg eftirspurn eftir valkyrjustjórn. Allt síast þetta inn vitund þeirra sem um véla. Komi til stjórnarsáttmála verða engin hátíðarhöld en hugað verður að vetrarforðanum. Þeir einir fyllast bjartsýni sem eru á framfæri annarra.

Frestun Kristrúnar í gær á myndun ríkisstjórnar til áramóta gefur ráðrúm til að skoða aðra möguleika en samstjórn Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar. Þær athuganir fara ekki fram í kastljósi fjölmiðla en gætu verið efnisríkari en viðræðuleikritið.

 

 


mbl.is Stefnt að stjórn fyrir áramót: Ráðuneytum fækkað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. desember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband