Sunnudagur, 1. desember 2024
Tveir turnar litlir og óstjórntækur þingflokkur
Inga Sæland, einn af þrem sigurvegurum kosninganna, sagði í tvígang í leiðtogaumræðum í nótt að hún hefði stofnað Flokk fólksins í eldhúsinu heima hjá sér. Eldhúsflokkur Ingu er óstjórntækur enda hægt að leggja hann niður með líkum hætti og til hans var stofnað. Þingmannalið Ingu er ekki þess eðlis að þeir bæti upp formanninn m.t.t. kjölfestu er þingflokkur verður að hafa til að teljast stjórntækur.
Kjósendur skiluðu tveim litlum turnum á alþingi, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Hvor flokkur er með um 20 prósent fylgi. Næsta ríkisstjórn verður þriggja flokka hið minnsta.
Nærtækt er að Samfylking og Sjálfstæðisflokkur myndi ríkisstjórn. Þriðja hjól undir vagni yrði annað hvort Miðflokkur eða Viðreisn. Líklega kýs Samfylkingin að fá Viðreisn sem þriðja hjól en Sjálfstæðisflokkur Miðflokkinn.
Samfylkingin er ekki með neinn flokk sér til vinstri alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn er aftur með Miðflokkinn og vill síður gefa honum sóknarfæri. Útgjaldaminna er fyrir Samfylkinguna að samþykkja Miðflokkinn í ríkisstjórn en Sjálfstæðisflokkinn að taka inn Viðreisn.
Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Viðreisn gætu myndað ríkisstjórn með naumum meirihluta. Það gæti hjálpað Samfylkingu að ganga til samstarfs við Miðflokk og Sjálfstæðisflokk.
Málamiðlun milli litlu turnanna er að taka Framsókn með sér í ríkisstjórn. Ólíkir flokkar stæðu utan stjórnar, Viðreisn og Miðflokkur, sem auðveldar stjórninni lífið enda með nauman meirihluta. Þá væri agavald yfir Framsókn að hvor um sig Viðreisn og Miðflokkur gætu með lítilli fyrirhöfn leyst flokkinn af hólmi í tveggja turna stjórninni.
Stærstu tíðindin í þessum þingkosningum er að þjóðin af visku sinni ákvað að hleypa ekki á alþingi óreiðuflokkum sósíalista, pírata og vinstri grænna. Niðurstaða kosninganna eykur manni tiltrú á lýðræðið og er það vel að morgni 1. desember.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)