Fimmtudagur, 21. nóvember 2024
Namibía: hvenær koma Íslendingarnir aftur?
Namibískir sjómenn sem störfuðu á skipum Samherja bjuggu við betri kjör og höfðu hærri hásetahlut en þeir hafa í dag. ,,Hvenær koma Íslendingarnir aftur?" er spurt í Namibíu, samkvæmt gögnum sem tilfallandi fékk í hendur. Veruleg launalækkun, um 60 prósent, er hlutskipti sjómanna eftir að Samherji hætti útgerð.
Samherji var með rekstur í Namibíu 2012 til 2019. Eftir að Jóhannes uppljóstrari Stefánsson skildi eftir sig sviðna jörð árið 2016 var farið í að finna kaupendur. Útgerðinni var endanlega hætt í árslok 2019.
Síðasta skipið sem Samherji gerði út var Heinaste. Skipið var um tíma kyrrsett vegna þríhliða deilu Samherja, viðskiptafélaga og namibíska ríkisins. Í byrjun árs 2020 var kyrrsetningu aflétt. Skipið var selt og fékk nafnið Tutungeni og siglir undir namibískum fána.
Tilfallandi fékk heimildir um breytt kjör áhafnar Heinaste eftir að skipið skipti um eigendur og nafn. Í tíð Samherjaútgerðarinnar hafði áhöfnin aðgang að internetinu út á sjó. Það var slökkt á þeirri þjónustu eftir að nýir eigendur tóku við skipinu. Þegar Íslendingar voru með forræðið borðuðu hásetar og yfirmenn saman. Nú er komin stéttskipting þar sem menn eru flokkaðir í æðri og óæðri í matsal. Meira máli skiptir þó hásetahluturinn sem er kaup sjómanna.
Í Samherjaútgerðinni var hásetahluturinn reiknaður um borð. Í dag sér skrifstofa í landi um útreikninginn. Ólíkar reikniaðferðir gefa ólíka niðurstöðu, og munar þar verulegu. Uppgjöri á einum túr Tutungeni var borið saman hvað sjómenn hefðu fengið greitt samkvæmt uppgjöri Samherja. Í Tutungeni-útgerðinni var hásetahluturinn 7 000 namibískir dalir, eða 55 þús. íslenskrar krónur. Uppgjör samkvæmt Samherja/Heinaste-útgerðinni hefði gert hásetahlut upp á 17 000 namibíska dali eða 135 þús. íslenskar krónur. Hásetahluturinn lækkar um 60 prósent.
Samherji fór eftir bókinni í útgerðinni þar syðra. Þegar kurlin voru öll komin til grafar skilaði Samherji til namibísks samfélags yfir 20 milljörðum íslenskra króna. Útgerðin í Namibíu var Samherja ekki gullnáma, líkt og RSK-miðlar halda fram. Félagið tapaði einum milljarði króna á starfseminni.
Íslendingar eru ekki líklegir til að hefja útgerð í Namibíu í bráð, þótt það yrði eflaust til hagsbóta fyrir Afríkumenn. Hér á Íslandi háttar málum þannig að ríkisfjölmiðillinn, RÚV, rekur í samstarfi við jaðarmiðla mannorðsmorðvél sem hrekkur í gang af engu tilefni. RÚV nýtti sér, og nýtir sér enn, að Íslendingar þekkja lítið sem ekkert til namibískra málefna. Mannorðsmorðvélin matreiðir þvætting ofan á bull og kallar fréttir. Undirferli og lævísi er beitt til að fólk trúi upplognum ásökunum.
Svo dæmi sé tekið af nýjustu afurð RÚV skrifar Ingi Freyr Vilhjálmsson fréttamaður og sakborningur eftirfarandi:
Skýrslan var unnin fyrir spillingarlögregluna í Namibíu sem rannsakaði málið. Hún er tæplega 500 blaðsíðna löng og sýnir í smáatriðum flæði peninga frá Samherja til namibísku áhrifamannanna sem eru sakborningar í málinu.
Takið eftir að Ingi Freyr notar ekki orðið mútur. Hann ætlar lesendum að draga ályktun um mútur af orðunum ,,flæði peninga frá Samherja til namibísku áhrifamannanna". Peningaflæðið sé þekkt ,,í smáatriðum". Lævíst orðalag sem ætlað er að skapa hugrenningartengsl við ólögmæta starfsemi. Fréttamaðurinn gefur sterklega til kynna, en segir ekki berum orðum, að lögreglan hafi sannanir fyrir mútum. Í viðskiptum skipta peningar um hendur oft og iðulega og þykir ekki tiltökumál. Annars væru menn á steinaldarstigi, stunduðu vöruskipti.
Skýrslan, sem Ingi Freyr vísar til, er samin af Deloitte endurskoðendum og er frá árinu 2020 þótt ekki komi það fram í fréttinni. Látið er í það skína að um nýlega skýrslu sé að ræða, en svo er ekki. Búið væri að ákæra Samherja fyrir mútugjafir, bæði á Íslandi og í Namibíu, ef legið hefði fyrir í fjögur ár að mútur hefðu verið greiddar. Skýrslan frá Deloitte segir ekkert um ólögmætt flæði peninga frá Samherja til namibískra áhrifamanna. Í réttarhöldunum, sem standa yfir þar syðra er enginn tengdur Samherja ákærður. Hér heima stendur enn yfir rannsókn héraðssaksóknara sem síðustu tvö ár er sögð á lokametrunum. En það er ekkert sem varðar ,,flæði peninga" sem út af stendur.
Hvorki lögregluyfirvöld í Namibíu né á Íslandi sjá neitt athugavert við greiðslur sem Samherji innti af hendi. Ingi Freyr talar digurbarkalega um 500 blaðsíðna skýrslu Deloitte. Skýrslan geymir engar upplýsingar um lögbrot Samherja. Við getum slegið því föstu af tveim ástæðum. Í fyrsta lagi er Samherji ekki á ákærubekk þar syðra. Í öðru lagi hefur Skatturinn á Íslandi yfirfarið allt bókhald Samherja frá þessum árum. Ekki fannst arða af mútufé. En samt mallar mannorðsmorðvélin áfram, gerir því skóna að fjögurra ára skýrsla sýni ólögmæta viðskiptahætti, mútugjafir. Þvættingur matreiddur ofan á eldra bull og selt sem fréttir.
Namibískir sjómenn sem urðu fyrir 60 prósent launaskerðingu við brotthvarf Samherja ættu að senda reikninginn á Glæpaleiti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)