Miðvikudagur, 20. nóvember 2024
RÚV: sakborningur segir fréttir um sjálfan sig og bróður sinn
RSK-miðlar, þ.e. RÚV, Stundin og Kjarninn, sem heita nú Heimildin, eiga aðild að tveim óuppgerðum sakamálum. RSK-miðlar eru upphafsaðilar beggja mála. Í öðru málinu, kennt við Namibíu, eru blaðamenn ásakendur. Í hinu tilvikinu, byrlunar- og símamálinu, eru blaðamenn sakborningar. Fréttamaður RÚV, Ingi Freyr Vilhjálmsson, er ásakandi í öðru málinu en sakborningur í hinu. Ríkisfjölmiðillinn lætur gott heita að sakborningur segi fréttir af sjálfum sér og bróður sínum.
RÚV hélt í gær upp á fimm ára afmæli Namibíumálsins með því að láta einn sakborninginn í byrlunar- og símamálinu, Inga Frey Vilhjálmsson, fjalla um Namibíumálið. Á Efstaleiti teljast það fagleg vinnubrögð fréttamaður segir fréttir af sakamáli sem nátengt er réttarstöðu hans sem sakbornings.
Bróðir Inga Freys, Finnur Þór Vilhjálmsson, er fyrrum saksóknari í Namibíumálinu. Hann varð dómari í héraðsdómi og gerði alla dómara þar vanhæfa til að úrskurða í kærumáli Örnu McClure, sem er sakborningur í Namibíumálinu. Í þeim úrskurði sagði að Finnur Þór sé
vanhæfur til að fara með rannsókn málsins vegna tengsla sóknaraðila [héraðssaksóknari/Finnur Þór] við rannsókn á máli lögreglustjórans á Norðurlandi eystra þar sem bróðir hans [byrlunar- og símamálið/Ingi Freyr] hefur réttarstöðu sakbornings og varnaraðili [Arna McClure] hefur stöðu brotaþola
Eins og nærri má geta segir Ingi Freyr fréttamaður RÚV ekkert frá fyrri aðkomu sinni að málinu, né heldur af þætti bróður hans. Ingi Freyr er bullandi vanhæfur til að fjalla Namibíumálið, jafnvel enn frekar en Finnur Þór bróðir hans sem gerði þó heilan dómstól vanhæfan. Tilfallandi skrifaði um samkrull bræðranna á þriggja ára afmæli Namibíumálsins og sagði: ,,Bræðurnir eiga þá sameiginlegu hagsmuni að finna sekt hjá Samherja."
Namibíumálið verður, í höndum Inga Freys og RÚV í gær, að gaslýsingu á málavöxtum. Aðalpunkturinn í fréttaskýringunni er að Samherji skuldi þeim lífsviðurværi sem unnu hjá útgerðinni. Samherji hætti mest allri starfsemi í Namibíu 2016, og endanlega 2019, eftir að stöðvarstjórinn þar, maður að nafni Jóhannes Stefánsson, keyrði starfsemina í þrot. Jóhannes gat ekki stjórnað eigin lífi, er áfengissjúklingur, fíkill og illskeyttur.
Þremur árum eftir að Jóhannes sigldi Namibíuútgerðinni í strand kynntu RSK-miðlar hann sem uppljóstrara. Jóhannes hafði í frammi stórar ásakanir um mútugjafir í Namibíu árabilið 2012-2016. Engin gögn fylgdu sem studdu gífuryrðin, aðeins framburður fíkniefnaneytanda. Upphaflegar ásakanir birtust í Kveíksþætti á RÚV í nóvember 2019. Erlendir fjölmiðlar, t.d. Aftenposten Innsikt, vekja athygli á að Jóhannes sé einn til frásagnar um mútugjafir. RSK-miðlar höfðu hönd í bagga að norska útgáfan birti ásakanir Jóhannesar. Aftenposten Innsikt baðst afsökunar að hafa gert það og sagði m.a.:
Greinin hafði að geyma fjölda staðhæfinga og ekki kom nægilega vel fram að umræddar staðhæfingar væru einhliða frásögn uppljóstrarans Jóhannesar Stefánssonar af málsatvikum. [...]
Afenposten Innsikt hefur enga stoð fyrir þeirri fullyrðingu að Jóhannes Stefánsson hafi komið fram fyrir hönd Samherja í mútum til manna í Namibíu né að samningur um eitthvað slíkt hafi verið gerður á milli Samherja og namibískra aðila. Um er að ræða ásakanir Jóhannesar Stefánssonar...
Erlendir blaðamenn taka ekki góða og gilda frásögn ógæfumanns eins og Jóhannesar. RSK-miðlar hafa á hinn bóginn í fimm ár haldið á lofti ásökunum uppljóstrarans. Ingi Freyr, blaðamaður Stundarinnar, síðar Heimildarinnar, á að baki marga tugi frétta um að Jóhannes sé trúverðug heimild og taka beri orðum hans sem heilögum sannleika. Erlendir blaðamenn, sem hafa kynnt sér málið, eru ekki sama sinnis. Ingi Freyr og félagar á RSK-miðlum stunda ásakanablaðamennsku sem skeytir engu um trúverðugleika heimilda eða sannindi máls. Magn og tíðni ásakana er keppikeflið, ekki hlutlægar upplýsingar.
Ingi Freyr kallar gaslýsta RÚV-afurð sína í gær fréttaskýringu. Afurðin er fyrst og síðast fréttahryðjuverk gegn sannleikanum. Í lok hryðjuverksins segist Ingi Freyr hafa haft samband við Samherja sem ,,vildi ekki tjá sig." Tilfallandi skal éta hatt sinn upp á það að þarna ljúgi fréttasakborningurinn eins og hann er langur til. Annað tveggja hefur Ingi Freyr ekki haft samband við Samherja eða fengið það svar, hafi hann beðið um álit að norðan, að heiðarlegt fólk hafi annað við tíma sinn að gera en að ræða við vanhæfan raðlygara á Glæpaleiti.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)