Sunnudagur, 17. nóvember 2024
Viðreisn, ESB-óreiðan og ónýta Ísland
Viðreisn boðar aðild að Evrópusambandinu fái flokkurinn kjörfylgi og aðild að ríkisstjórn. Eina hreina vinstristjórn lýðveldisins, ríkisstjórn Jóhönnu Sig. 2009-2013, samþykkti þann 16. júlí 2009 að sækja um ESB-aðild - á afmælisdegi Tyrkjaránsins.
Svik og undirferli voru undanfari aðildarumsóknarinnar 2009. Vinstri grænir lofuðu kjósendum sínum ESB-andstöðu þá um vorið. Flokkur forsætisráðherra, Samfylkingin, svindlaði á flokksmönnum þegar þeir voru beðnir að samþykkja að gera ESB að stefnumáli um aldamótin.
Áramótin 2012/2013 var umsóknin lögð til hliðar. Ríkisstjórnin sá ekki fram á að þjóðin myndi samþykkja framsal fullveldis til embættismannaveldis á erlendri grundu. Stjórnarflokkarnir, Samfylking og Vinstri grænir, guldu afhroð í þingkosningum vorið 2013. Síðan er fátt að frétta af ESB-daðri.
Þangað til núna.
Óopinbert slagorð Samfylkingar eftir hrun var ónýta Ísland. Ástandið var svo óbærilegt að nýja stjórnarskrá þurfti, nýjan gjaldmiðil og gott ef ekki nýja þjóð í landið. Stóra endurræsingin var ESB-aðild.
Á síðustu árum lærði Samfylkingin sína lexíu og tónaði niður orðfærið sem flokknum var tamt í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sig. En þá stekkur Viðreisn til og tileinkar sér pólitíkina um ónýta Ísland.
Með sjálfa hrundrottninguna í farþegasætinu og grínista undir stýri endurvekur Viðreisn bábiljuna að ESB-aðild bjargi Íslandi. Sagan frá 2009 endurtekur sig sem farsi í kosningabaráttunni en gæti endað í harmleik 30. nóvember fái Viðreisn meðbyr kjósenda.
Viðreisn krefst aðildarviðræðna við ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |