Vísir neitar Páli skipstjóra um að svara sakborningum

Tveir sakborningar í byrlunar- og símamálinu, Aðalsteinn Kjartansson og Þóra Arnórsdóttir, mættu ásamt lögmanni í pallborð Vísis miðvikudag í síðustu viku. Blaðamaður Vísis, Hallgerður Kolbrún, sagði í upphafi pallborðsins að brotaþola, Páli skipstjóra Steingrímssyni, yrði boðið að segja sína hlið málsins. En síðan er liðin vika og ekki hefur skipstjóranum verið boðið að svara sakborningum.

Þóra Arnórsdóttir fyrrum ritstjóri Kveiks á RÚV tók við stolnum síma skipstjórans þann 4. maí 2021. Þáverandi eiginkona Páls hafði byrlað honum nóttina áður. Er eiginkonan afhenti Þóru símann lá eiginmaðurinn milli heims og helju í öndunarvél á gjörgæslu Landspítalans. Í pallborðinu fyrir rúmri viku var Þóra spurð um viðtöku símans. Eftirfarandi er samantekt á Vísi:

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir þáttastjórnandi spurði Þóru hreint út hvernig hennar hlutur í málinu væri til komin, með að hún hafi keypt síma sambærilegan þeim sem skipstjórinn átti, tekið við honum upp í RÚV og afritað? Þóra sagði þetta merkilega umræðu en vildi taka upp þráðinn þar sem Aðalsteinn skildi við hann. [...]
Þóra sagði þetta ekki koma sér við, kannski hafi hún tekið við síma, kannski ekki en því gæti hún bara ekki svarað...

Þóra var í reglulegum samskiptum við eiginkonu skipstjórans. Konan glímir við alvarleg andleg veikindi. Eftir að lögreglurannsókn hófst bað Þóra konuna að láta af hendi símkort og einkasíma - væntanlega til að eyða fyrri samskiptum þeirra á milli. Áður en skipstjóranum var byrlað hafði Þóra keypt Samsung-síma, sams konar og skipstjórans, sem var til taks á RÚV þann 4. maí er veika konan mætti á fund Þóru.

Vísir bauð sakborningum í pallborð og lofaði áhorfendum að Páll skipstjóri yrði fenginn til að tjá sig um sína hlið málsins. Ekki stendur til að efna það loforð. Vísir tók í raun að sér einhliða málsvörn fyrir sakborninga en lét lönd og leið fagleg sjónarmið um hlutlæga blaðamennsku, jafnræði og sanngirni.

Fáheyrt er að fjölmiðill leggist á sveif með sakborningum í alvarlegu refsimáli en meini brotaþola að taka til máls. Ritstjórn Vísis tekur hagsmuni blaðamanna grunaða um glæpi fram yfir brotaþola með hreinan skjöld og óflekkað mannorð. Eitthvað er rotið á ritstjórn Vísis.


Bloggfærslur 24. október 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband