Bjarni leiðtogi, Kristrún kynnir stolta þjóð

Ákvörðun Bjarna Ben. að rjúfa þing og boða til kosninga sýnir áræðinn leiðtoga. Varfærinn kostur var að sitja af sér þingveturinn í gíslingu Vinstri grænna. Rétt áður en aðventuglugginn lokaðist - ekki er kosið í desember nema í neyð - tilkynnir Bjarni stjórnarslit og boðar til kosninga síðasta laugardaginn í nóvember. 

Útlendinga- og efnahagsmál á breiðum grunni verða kosningamálin, sagði forsætisráðherra efnislega á blaðamannafundi þar sem hann kynnti stjórnarslitin. Leiðtogahæfni Bjarna kom fram er hann útskýrði málefnalega og háttvíst að með Vinstri græna í ríkisstjórn yrði ekki komist lengra í málaflokkum sem skiptu þjóðina máli. Svanhof og skæruliðarnir áttu sinn tíma en nú skyldi látið gott heita.

Vinstri grænir gortuðu sig af nætursímtölum við lögreglu til að halda landamærunum opnum og þar með óheftum straumi útlendinga í bithaga íslenskrar velferðar. Eitt er að ráðherra hringi að nóttu í embættismenn er heyra ekki undir hann. Að hreykja sér af er annað og fyrirlitlegra. 

Í viðtali strax eftir tilkynningu Bjarna staðfesti Kristrún formaður Samfylkingar kosningamálin. ,,Sterk vel­ferð, stolt þjóð," sagði Kristrún í viðtali við Morgunblaðið og endurtók á Vísi. Velferð byggir á sterkri efnahagsstjórnun. Stolt þjóð í eigin landi var viðkvæðið í sjálfstæðisbaráttunni á síðustu öld. Þjóðhyggjutónn formanns Samfylkingar sýnir að hann keppir við Miðflokkinn um æ stærri kjósendahóp er geldur varhug við opnum landamærum.

Vinstriflokkur sem talar um stolta þjóð í frjálsu landi er nýmæli í seinni tíma pólitískri orðræðu. Dæmi úr Þjóðviljanum um miðja síðustu öld með áþekkum áherslum. Þar er harmað að ,,hin stolta söguþjóð skuli áfram vera í vinnumennsku hjá annarri þjóð í sínu eigin landi." Þjóðhyggja á vinstri vængnum átti heimilisfesti í Alþýðubandalaginu. Kratar voru dansklundaðir fram að lýðveldisstofnun en brusselrófur um aldamótin. Komið er annað og þjóðlegra hljóð í kratastrokkinn. Stolt þjóð er viðbragð Kristrúnar við hræringum í þjóðarvitundinni sem hún vill ekki að Samfylkingin fari á mis við.

Nú falla vötn öll til Dýrafjarðar.

 

 

 

 


mbl.is Ríkisstjórnin sprungin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. október 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband