Óvissa, sérfræðingar og fréttir

Enginn veit hvenær eða hvar gýs í nágrenni Grindavíkur. Þegar grannt er hlustað eftir áliti sérfræðinga kemur á daginn að þeir eru ekki fyllilega sammála. Ekki aðeins um hvar eða hvenær gjósi heldur einnig um réttan undirbúning og tímasetningar viðbragðsáætlana.

Í Grindavík og nágrenni, s.s. í Svartsengi, er rekin margháttuð atvinnustarfsemi sem óraunhæft er að loka á meðan fátt er vitað um hvar og hvenær eldsumbrot hefjast. Fólk vill skiljanlega lifa sínu daglega lífi án rýmingar og lokana nema þegar brýn nauðsyn kallar.

Óvissan er nagandi og þá reynir á sérfræðingana að segja ekki meira en sæmileg innistæða er fyrir. Ekki skal þó þvertaka fyrir að innsæi skiptir máli og er eðli málsins samkvæmt ekki auðmælanleg. Vitanlega ætti ekki að fara þá leið að semja handrit að samræmdri skoðun og krefja sérfróða að fylgja forskrift. Við óvissuna um hvar og hvenær eldsumbrot hefjast er betra að hafa fleiri sjónarmið en eitt er byggir á valdboði.

Fréttamenn sem krefja sérfræðinga svara um mál sem ekki er hægt að fullyrða neitt um án fyrirvara ættu að hafa taumhald á sér í framsetningu frétta. Undir er lífsviðurværi fólks sem ekki ætti að taka af léttúð. Samtímis eru möguleg eldsumbrot að umfangi er kallar á fulla árvekni.

Hugur manns er hjá Grindvíkingum.

 

 


mbl.is Kvikuinnstreymið miklu öflugra en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. nóvember 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband