Stór orð innihaldsrýr, mest hroki

Stríðið í Úkraínu snýst um frelsi og lýðræði, er algeng réttlæting fyrir vestrænum stuðningi við stjórnina í Kænugarði. Í kalda stríðinu höfðu hugmyndirnar sterk ítök, bæði á vesturlöndum og víða um heim, þar sem frelsi og lýðræði voru andstæður við kommúnískt alræði. Menningarleg mishröðun veldur því að elítur á vesturlöndum standa enn í þeirri trú að hugmyndirnar séu algildar á heimsvísu. Reyndin er allt önnur.

Frelsi og lýðræði voru prufukeyrð í Afganistan og Írak í byrjun aldar og aftur í Líbýu og Sýrland um miðjan síðasta áratug. Hugtökin seldu ekki, vestrið fór halloka. Miðausturlönd eru íslamskt menningarsvæði og nokkur tregða þar að tileinka sér kristnar hugmyndir vestrænar.

Úkraína, á hinn bóginn, er sæmilega kristið á vestrænan mælikvarða og ætti að vera móttækilegt fyrir lýðræði og frelsi. Sama gildir um Rússland enda þarlend menning sú hin sama og í Garðaríki.

Stórar hugmyndir selja sig sjálfar, standi þær undir sér. Að öðrum kosti bíður þeirra grýttur jarðvegur. ESB-hugsjónin, svo dæmi sé tekið, var léleg innflutningsvara á Ísland og gerði sig aldrei sem slík. Ekki einu sinni þegar þjóðin var í taugaáfalli eftir hrun.

Ef vestrið, hér erum við vitanlega að tala um ráðandi elítur á vesturlöndum, tryði í raun og sann á frelsi og lýðræði og algildi hugmyndanna a.m.k. á menningarsvæðinu frá Portúgal til Úral-fjalla, hefði aldrei orðið Úkraínustríð. Vestrið hefði einfaldlega látið tímann vinna að framgangi hugsjónanna. Á öldinni sem er að líða yxu bæði Úkraína og Rússland til ástar á lýðræði og frelsi og líkt og þekkist í Bandaríkjunum, Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi. Stöðug vestræn misþyrming á frelsi og lýðræði gerir hugmyndirnar aftur að gatslitnum flíkum. 

Úkraínustríðið snýst ekki um frelsi og lýðræði, ekki frekar en að krossferðir á miðöldum snerust um vilja guðs. Í stað kaþólsku kirkjunnar sjá vestrænir fjölmiðlar um að blekkja lýðinn, telja honum trú um að kalda stríðið standi enn. Staðfest gjá er á milli hugmynda og veruleika.

Stríðið á gresjum Garðaríkis verður best skilið í samhengi við sígilda valdapólitík heimsvelda og bandalaga þeirra. Í einn stað Bandaríkin og Vestur-Evrópa (ESB) en í annan stað Rússland, sem eftir að stríðsátök brutust út er orðinn náinn bandamaður Kína. Úkraína er þannig í sveit sett að færi landið undir Nató-vestrið væru taldir dagar Rússlands sem heimsveldis. Nægir að líta á landakort til að sannfærast um það.

Á Rússland rétt á því að vera heimsveldi, jafnvel þótt það sé staðbundið? Þannig mætti spyrja. Eiga Bandaríkin heimsvaldarétt? ESB? Nei, ekkert ríki á tilkall til heimsveldis og hefur aldrei átt. Ekki ef við skiljum orðin ,,réttur" og ,,tilkall" siðferðislegum skilningi. En heimsveldi hafa alltaf verið til, a.m.k. frá Forn-Grikkjum að telja. Ein af staðreyndum alþjóðastjórnmála sem þarf að lifa með. Það er hægt að gera þá kröfu að þau hagi sér skikkanlega, sýni skynsemi að ekki sé sagt mannúð. Einkum þau heimsveldi sem kenna sig við frelsi og lýðræði. 

Stríð eru miskunnarleysið uppmálað, gjaldþrot mennskunnar. Til að réttlæta stríð þarf stórar hugmyndir. Vestrið notar hugmyndagóss frá kalda stríðinu. Pútín er Stalín endurfæddur, heimurinn skiptist í austur og vestur, gott og illt, vestrænt lýðræði og kommúnisma. Nema, auðvitað, það er enginn kommúnismi austur í Rússíá. Hefur ekki verið í 30 ár. Orðræðan er úr sér gengin, passar ekki við veruleikann.

Pútín hugsar um öryggi rússneska ríkisins en vestrið um að stækka áhrifasvæði. Áður en til stríðsátaka kom í febrúar á liðnu ári var friður í boði: hlutlaus Úkraína utan hernaðarbandalaga. Er það mátti ekki, orðræða kalda stríðsins var ráðandi.

Almenningur á vesturlöndum lítur stríðsbrölt Nató-ríkjanna hornauga. Engin löngun er til að senda vestræna hermenn þangað austur til að deyja fyrir málstað sem engum er hugþekkur. Stórveldabrölt er áhugamál elítunnar, ekki Jóns og Gunnu.

Heimsveldum er hugmyndafræði nauðsynleg til að réttlæta tilvist sína. Forn-Grikkir kölluðu þá barbara sem ekki tilheyrðu grískri menningu. Barbarinn Alexander mikli og lagði undir sig grísku borgríkin. Rómverjar státuðu af latínu og Pax Romana, Rómverjafriði, sem aðskildi menningu og villimennsku. Alráður vísigoti settist um Róm í byrjun fimmtu aldar sem bar ekki sitt barr eftir það.

Pútín er hvorki Alexander mikli né Alráður vísigoti, ekki frekar en hann sé endurfæddur Stalín. Rússland er staðbundið heimsveldi, ekki með hugmyndafræði til útflutnings. Rússagrýlan er skáldskapur. 

Vestrinu stafar meiri hætta af eigin elítum en Pútín. Vestrænn hroki er upphafið að stríðinu í Garðaríki. Þegar stríðinu lýkur, fyrirsjáanlega með rússneskum sigri, verður skipt um ráðandi öfl á vesturlöndum. Elítan sem sigraði kalda stríðið er komin fram yfir síðasta söludag. Dramb, eins og Forn-Grikkir vissu, er falli næst. 

 

 


mbl.is „Stríð til að drepa“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 3. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband