Glæpur og refsing saksóknara og bróa blaðamanns

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari fer með rannsókn Namibíumálsins svokallaða. Bróðir Finns, Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður á Stundinni, bjó málið í hendur Finns Þórs ásamt öðrum blaðamönnum.

Í bókinni Ekkert að fela, sem er um Namibíumálið, segir í eftirmála að þegar leið á ,,verkefnið var ákveðið að dagblaðið Stundin yrði hluti af fjölmiðlabandalaginu í birtingunni og blaðamaðurinn Ingi Freyr Vilhjálmsson var kallaður til..."

Verkefnið, sem vísað er til, eru ásakanir Jóhannesar Stefánssonar uppljóstrara og RSK-miðla (RÚV, Stundarinnar og Kjarnans) um að Samherji hafi stundað stórfelldar mútugreiðslur í Namibíu.

Verkefnið hófst haustið 2018 með fundi Helga Seljan fréttamanns RÚV og Jóhannesar fyrir milligöngu Kristins Hrafnssonar. Í rúmt ár var unnið að málinu. Ingi Freyr hafði verið málsaðili í marga mánuði þegar fréttaskýringarþátturinn Kveikur opinberaði Namibíumálið í nóvember 2019.

Í beinu framhaldi fékk Finnur Þór saksóknari hjá embætti héraðssaksóknari Namibíumálið til rannsóknar með fingraförnum bróður síns Inga Freys og fjölmiðlabandalagsins, RSK-miðla.

Blaðamenn bjuggu til sögu um mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Það vantaði bara eitt. Gögn sem staðfestu söguna. Jóhannes uppljóstrari lagði ekki fram nein gögn sem renndu stoðum undir vitnisburðinn. Sjálfur er uppljóstrarinn uppfullur af hatri á fyrrum vinnuveitanda og haldinn ranghugmyndum sem hann rakti til ótæpilegar vímuefnaneyslu.

Jóhannes er svo léleg heimild að vitnisburður hans er hvorki tækur í dómssal á Íslandi né í Namibíu. Trúgjarnir blaðamenn, sjálfir með ranghugmyndir, átu hráar ímyndanir uppljóstrarans. Þar hæfði skel kjafti. 

Frá miðju sumri 2020 er Arna McClure lögfræðingur hjá Samherja sakborningur í Namibíurannsókn Finns Þórs. Bróðir hans, Ingi Freyr á Stundinni, hefur á þessum tíma skrifað 31 frétt þar sem nafn Örnu er bendlað við mútugreiðslur.

Fréttirnar eru orðaðar á lævísan hátt, þar sem ákvörðun Finns Þórs saksóknara um að halda Örnu sem sakborningi, eru notaðar sem rökstuðningur fyrir aðild að glæpum. Endurvinnsla bræðranna felur í sér að Ingi Freyr ásakar, sem Finnur Þór tekur við og stimplar sem lögmætar og aftur skrifar Ingi Freyr fréttaásökun með bróðir sinn sem heimild. Í rökfræði heitir þetta hringsögn og er ómarktækur málflutningur. Dæmi úr Stundinni í 142. tbl. 2021 s. 50: 

Jón Óttar kom að þessum greiðslum, ásamt Örnu Bryndísi McClure, sem var
viðtakandi tölvupósts hans og eru þau nú bæði með réttarstöðu sakbornings í
rannsókn embættis héraðssaksóknara ó Namibíumálinu.

Ingi Freyr blaðamaður blekkir lesendur Stundarinnar í fleiri en einum skilningi. Auðvitað á hann að upplýsa lesendur að bróðir hans er téður saksóknari. En þá myndu lesendur átta sig á að sama fréttaásökunin verður ekki trúverðugri þótt hún fari á milli bræðranna.

Ef svona aðferðum væri beitt í viðskiptalífinu yrði það óðara kallað spilling, - og hún af alvarlegra taginu þar sem í hlut á opinber embættismaður. En það virðist ekki tiltökumál þótt bræður véli um stöðu einstaklinga í opinberum málum, þar sem ríkir hagsmunir annars bróðurins eru að hinn finni sök sem ákært verði fyrir.

Nú, þegar Arna leitar til dómstóla, að fá stöðu sinni sem sakborningi aflétt, verður saksóknari að skila greinargerð til héraðsdóms sem rökstyður ítrekaðar ákvarðanir Finns Þórs um réttarstöðu Örnu.

Hvað gerir Finnur Þór? Mun hann taka saman fréttir bróa blaðamanns og kalla samantektina greinargerð? Og halda því jafnframt fram að hann sé óhlutdrægur og vel hæfur handhafi ákæruvaldsins í máli þar sem bróðir hans, blaðamaðurinn, á undir orðspor sitt og æru að málið fái ákveðna niðurstöðu? 

Þeir hafa um eitt og annað að spjalla bræðurnir, saksóknarinn og blaðamaðurinn. Almenningur, á hinn bóginn, hlýtur að klóra sér í kollinum og spyrja hvernig komið er fyrir réttarríkinu. Hver ákvað að fjölskyldufyrirtækið Glæpur og refsing ehf. yrði handhafi ákæruvaldsins?

(Neðanmáls innan sviga: þriðji bróðirinn, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, er lögmaðurinn sem stefnir tilfallandi bloggara fyrir hönd ritstjóra og blaðamanns Kjarnans. Stefnan er vegna bloggskrifa um RSK-sakamálið. Vonandi er fjórði bróðirinn ekki héraðsdómari).


mbl.is Tjáir sig ekki um meint vanhæfi saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 12. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband