Verðlaunað sakleysi Þóru á Glæpaleiti

Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks á RÚV fékk Eddu-verðlaun á sunnudag. Hún er, ásamt a.m.k. þremur öðrum blaðamönnum RSK-miðla, sakborningur í rannsókn lögreglu á byrlun Páls skipstjóra og stuldi á síma hans. Í ávarpi þakkaði Þóra ,,fagfólkinu" að búa til þann veruleika að hún væri saklaus. Páll skipstjóri var eðlilega ekki sáttur.

Fjölmiðlafólk leikur þennan leik. Þrír blaðamenn, allir sakborningar, fengu verðlaun í vor.

Blaðamenn og sviðslistafólk segja sögur. Þær sögur sem blaðamenn segja skulu byggja á heimildum en ekki skáldskap. Báðir hóparnir eiga að halda sig innan laga og reglna í störfum sínum. Ef misbrestur verður þar á kemur annað fagfólk til sögunnar, lögreglan. Í lögreglurannsókn er hvorutveggja metið það sem horfir til sýknu og sektar. Sakborningur verður aðeins sá sem yfirgnæfandi líkur eru á að sé sekur um refsivert athæfi. 

Blaðamenn RSK-miðla virtu ekki lög og reglur þegar þeir gerðu atlögu að Páli skipstjóra. Af þeirri ástæðu eru þeir sakborningar. Líkamsárás með byrlun, stafrænt kynferðisofbeldi, gagnastuld og brot á friðhelgi einkalífs eru sakarefni, skv. greinargerð lögreglu dags. 23. febrúar. Allir geta kynnt sér gögnin, líka dómnefndarmenn í verðlaunanefndum fjölmiðla og sviðslista.

Eftir að blaðamenn fengu stöðu sakborninga lögðu þeir á flótta undan réttvísinni. Með lagaklækjum og fjarveru töfðu þeir rannsóknina um hálft ár. Á meðan flóttinn stóð yfir var safnað liðið í formi verðlauna, Eddu-verðlaunin á sunnudag og blaðamannaverðlaun í vor. Sú saga var spunnin að verðlaunahafar gætu ekki verið afbrotamenn. Blekkinguna kaupa aðeins þeir sem eru með greindarvísitölu fyrir neðan frostmark, eins og valinkunnur sjómaður segir gjarnan.

Loksins þegar blaðamenn mættu í yfirheyrslu lögreglu í ágúst og september var viðkvæðið: en ég fékk verðlaun

Í þakkarræðu sinni sl. sunnudag sagði Þóra að lögreglan hefði krafið sig ,,um nöfn heimildamanna." Þetta er bláköld lygi. Í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar segir lögreglan að hún viti hver sé heimildarmaðurinn. ,,Lögreglan veit hver heimildarmaðurinn er," segir orðrétt í greinargerðinni. Þóra þekkir sín hjú og veit að sannleikurinn þvælist ekki fyrir þeim. Ósannar sögur með réttri hugmyndafræði seljast eins og heitar lummur í sumum menningarkimum.

Heimildarmaður Þóru er mjög veik kona sem tók að sér að byrla Páli og stela síma hans. Frá veiku konunni fór síminn á Efstaleiti þar sem Þóra starfar. Þaðan fór efni símans á hjáleigur RÚV, Stundina og Kjarnann, til birtingar. Miðstöðin var á RÚV.

Glæpurinn gegn Páli skipstjóra var framinn 3. maí í fyrra. Veika konan var kölluð í yfirheyrslu 5. október. Gögn sýna að Þóra var í símasamskiptum við konuna tveim klukkustundum fyrir yfirheyrsluna og oftar en 20 sinnum þá um haustið. Tölvupóstar staðfesta aðgangshörku Þóru, hún krafðist m.a. upplýsinga um einkamál skipstjórans. Þær upplýsingar voru notaðar til að hafa í hótunum. Páll hlyti verra af drægi hann ekki kæru um símastuld tilbaka.

Til að bíta höfuðið af skömminni ákvað dómnefnd Eddu-verðlaunanna að Helgi Seljan yrði ,,sjónvarpsmaður ársins." Á síðasta ári þverbraut Helgi siðareglur RÚV, samkvæmt úrskurði siðanefndar ríkisfjölmiðilsins. Hann var látinn taka pokann sinn um áramót. Var gerður samningur um að ef hann færi með góðu hlyti hann verðlaun? Útvarpsstjóri var hátíðlegur þegar hann lét Helga fara til að halda í Þóru sína og sagði:

Hvað Helga Seljan varðar sérstaklega þá er það sigur fyrir íslenska þjóð og blaðamennsku að þessi öflugi blaðamaður haldi áfram sínum störfum.

Þegar útvarpsstjóri lætur þessa umsögn frá sér fara um mann sem þverbrýtur siðareglur RÚV má öllum vera ljóst að Glæpaleiti er vanheill vinnustaður. Eftir höfðinu dansa limirnir. Siðleysi er faraldur í fjölmiðlastéttinni.

 

 

 

 

 


Bloggfærslur 20. september 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband