Föstudagur, 6. maí 2022
Trump, páfinn, Úkraína og heimsþorpið
Það er bein lína milli samsæriskenninga frjálslyndra og vinstrimanna að Pútín Rússlandsforseti hafi tryggt Trump sigur 2016 og stríðsvilja þeirra í Úkraínu.
Á þessa leið er greining fréttamannsins Tucker Carlson sem er með hvað mest áhorf fréttatengdra þátta í Bandaríkjunum. Hægt er að vera sammála eða ósammála þeim bandaríska, en kenningin er komin á flot.
Annað í bakgrunni greiningarinnar segir stærri sögu. Carlson sýnir myndbönd af heimsóknum bandarískra áhrifamanna til Selenskí forseta í Kænugarði. Stjórnmálamenn koma reyndar í flugvélaförmum til Kænugarðs að fá augnablik í sviðsljósinu, - svo það er ekki fréttnæmt.
Aftur er orðræða bandarísku stjórnmálamannanna áhugaverð. Þeir segja Úkraínu heyja stríð fyrir ,,okkur" og eiga við Bandaríkin/vesturlönd. ,,Við" erum heimsþorpið í stríði hið illa, sem Pútín er holdgervi fyrir.
Heimsþorpið er sú hugmynd að öll séum við af sama kyni. Gens una sumus, eins og það heitir í skáheiminum. Heimsþorpið er óopinbert slagorð alþjóðahyggjunnar.
Saga þorpsins hefst eftir síðustu ísöld þegar maðurinn lagði af veiðimennsku og hóf fasta búsetu. Sögur af þorpum, t.d. í Evrópu á miðöldum eða nýöld, geyma frásagnir um gyðingafjölskylduna í útjaðri þorpsins sem þurfti að grýta af því hún mengaði vatnsbólið. Einnig af gömlum konum, einstæðingum, sem varð að brenna fyrir galdra. Þorpið fóstrar með sér goðsagnir og trú á hindurvitni. Innan þorpsins takast á ólík öfl. Frægasta þorpið í fornöld, Róm, átti sína patríarka en líka plebba. Það er minnihluti, stundum í fleirtölu, og það er meirihluti, jafnan í eintölu.
Heimsþorp meirihlutans fær þörf fyrir illmenni, raunveruleg eða skálduð. Forsenda fyrir samheldni meirihluta heimsþorpsins er að eiga óvin og gera hann ómennskan.
Góðu heilli eru til einstaklingar í áhrifastöðum sem skipta ekki heiminum í rétt og rangt. Raunsæir vita að guð og djöflar eiga bústað í hverjum manni. Í hverju þorpi er bæði gott og illt.
Frans páfi í Róm fordæmir stríðið í Úkraínu. En hann spyr einnig: hvað var Nató að gelta við dyrastaf Rússa? Páfinn er til í að heimsækja Kænugarð. En fyrst vill hans heilagleiki sækja Pútín heim í Kreml.
Raunsær maður, Frans páfi. Enginn þorpari.