Þriðjudagur, 5. apríl 2022
Þjóðarmorð og þriðja heimsstyrjöldin
Ásakanir um stríðsglæpi í Úkraínu ganga á víxl. Stærsta ásökunin er á hendur Rússum um að hafa skipulega myrt saklaust fólk í Bútsja útborg Kænugarðs, bundið hendur þess fyrir aftan bak og skotið í hnakkann. Rússar andmæla, segjast saklausir, og krefjast alþjóðlegrar rannsóknar.
Vestrænir fjölmiðlar eru þegar búnir að dæma Rússa án annarra upplýsinga en frá Úkraínumönnum sem umhugað er um að alþjóð trúi öllu illu upp á andstæðinginn.
Leiðtogar vestrænna ríkja fylgja í humátt á eftir fjölmiðlum og fordæma Rússa ekki með neitt annað í höndunum en úkraínskar upplýsingar sem gætu verið sviðsettur skáldskapur.
Þetta er hættulegur leikur. Ef alþjóð sannfærist um að Rússar séu réttdræpir stórglæpamenn fylgir í kjölfarið krafa um að þeim sé refsað grimmilega, - ekki aðeins með efnahagsþvingunum.
Rússland er ekki smáríki sem vesturlönd geta tuktað til að vild. Rússland er kjarnorkuveldi.
Ef trúnaður er lagður á úkraínskar upplýsingar um stríðsglæpi og þjóðarmorð Rússa, án frekari sannana, eykur það eftirspurnina eftir ásökunum. Þeirri eftirpurn er auðveldlega mætt, með lygum ef ekki vill betur. Afleiðingin er stigmögnun sem getur með skömmum fyrirvara breytt staðbundnum átökum í stríð kjarnorkuvelda.
Þegar kjarnorkuveldin skiptast á skotum er komið í nokkuð meira óefni en hingað til. Tilfæra mætti orð vestfirsku kerlingarinnar, sem sagði í ágúst 1914, við upphaf fyrra stríðs: það er ég viss um að þeir hætta ekki þessari vitleysu fyrr en þeir drepa einhvern.
![]() |
Safna sönnunargögnum vegna fjöldamorðsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)