Um hvað er barist í Úkraínu?

Rússar kalla stríðið í Úkraínu ,,aðgerð" til að frelsa rússneskumælandi borgara undan kúgun og áþján ríkisstjórnarinnar í Kænugarði, er höll sé undir nasisma. Að öðru leyti miðist aðgerðir Rússa við afvopnun, afnasistavæðingu annars vegar og hins vegar að Úkraína gangi ekki í hernaðarbandalag gegn Rússlandi - og er þar átt við Nató. Þetta er um það bil afstaða Rússa.

Úkraínumenn kalla meintar aðgerðir Rússa stríð, ef ekki þjóðarmorð, sem hófst með innrás 24. febrúar síðast liðinn.

Til að flækja málin er yfirstandandi aðgerð/stríð framhald af stjórnarbyltingu í Kænugarði á fyrri hluta árs 2014, fyrir átta árum, þegar forseta sem þótti hliðhollur Rússum var steypt af stóli með vestrænni aðstoð. Rússar tóku þá Krímskaga af Úkraínu. Rússneskumælandi aðskilnaðarsinnar í austurhéruðum landsins, sem kallast Donbass, höfnuðu yfirvaldi nýrra valdhafa í Kænugarði og fengu vernd frá Rússlandi.

Til að flækja málin enn frekar líta vesturlönd svo á að innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar sl. sé til marks um að þeir ætli sér að endurreisa rússneska keisaraveldið, sem stjórnaði Úkraínu, ef ekki sjálf Sovétríkin sem réðu yfir allri Austur-Evrópu og hálfu Þýskalandi eftir seinna stríð.

Það er sem sagt margt í mörgu, eins og kerlingin sagði.

Staðan núna er að rússneskur her sækir inn í suður- og austurhluta Úkraínu. Þar er barist nótt sem nýtan dag, með manntjóni beggja fylkinga og almennra borgara. Nató-ríkin senda vopn til Úkraínu en engan mannskap, nema kannski fáeina málaliða. Nató býr sig undir stærra hlutverk á alþjóðavettvangi, sbr. ræðu Liz Truss utanríkisráðherra Breta. Það gæti þýtt að Nató-hermenn yrðu þátttakendur með tilheyrandi stigmögnun átaka.

Ýmsar samsæriskenningar eru á floti um framhaldið. Til að gefa lesendum smjörþefinn kemur hér ein: Pólverjar eru áhugasamir að ná til sín vesturhéruðum Úkraínu, sem Stalín hirti af þeim í lok seinna stríðs. Pólsk hugmynd er að fara inn í héraðið í kringum borgina Lviv, þar sem íslenskur stórmeistari rekur banka, og ,,verja" svæðið frá stríðsátökum. Samsæriskenningin gerir ráð fyrir að Pólverjar fari inn í Úkraínu sem þjóðarher, en ekki Nató-her, en með vestrænu vilyrði. Á bakvið tjöldin verði gert samkomulag við Pútín um að Rússar fá austurhluta Úkraínu og hluta af svæðinu ofan Krímskaga gegn því að vesturhlutinn verði pólskur og þar með Nató-væddur. Afgangurinn af Úkraínu yrði hlutlaus og utan Nató. Þetta er samsæriskenning, vel að merkja, en lýsir óvissunni.

Burtséð frá pælingum er dagsatt að 9. maí nálgast. Í Rússlandi er þetta stórhátíðardagur, líkt og 17. júní Íslendingum. Dagurinn markar sigur yfir Hitler í seinna stríði. Fáar þjóðir keyptu þann sigur dýrara verði en einmitt Rússar.

Þeir sem telja sig vita eitthvað um rússneskt hugarfar fullyrða að í aðdraganda 9. maí muni Rússar gera eitthvað stórt í Úkraínu, til að fagnaðardagurinn standi undir nafni. Sömu heimildir staðhæfa að Úkraínumenn geri sitt ítrasta að spilla gleðinni, t.d. með árás á Transnistíu, rússneskumælandi sjálfsstjórnarhéraði í Moldavíu, vestur af Úkraínu. Borgin Ódessa er eins og lús milli tveggja nagla. Vestan er Transnistía, á áhrifasvæði Rússa, en austan er óvígur rússneskur her í Kherson-héraði. Falli Ódessa Rússum í skaut er Úkraína orðið landlukt, kemst hvergi að sjó. Í aðdraganda 9. maí gæti orðið hvellur á þessum slóðum.

Eðlilega spáir stjórnin í Kænugarði í frið þegar landið skreppur saman er heyrir undir gömlu víkingaborgina. Snilldargreining kemur frá ráðgjafa Selenskí forseta í viðtali við þýsku útgáfuna Die Welt. Hann er spurður um möguleika á úkraínskum sigri:

Það fer eftir því hvernig maður skilgreinir sigur [...] Sigurvegarinn er sá sem nær markmiðum sínum. Okkar markmið er að varðveita landsvæði sem tilheyrir okkur. Okkar markmið er að sýna að þjóð, sem telst sigruð, geti samt sem áður verið sterk.

Sterk þjóð en sigruð, sem sagt, í aðeins minna landi en hún átti fyrir rússnesku aðgerðina/innrásina 24. febrúar. Hljómar raunsætt, en ógerlegt í framkvæmd.

Ef Úkraínumenn lytu samstæðu ríkisvaldi og þyrftu ekki að hafa áhyggjur að innbyrðis ósamþykki eða afstöðu Nató væri sennilega hægt að semja fyrir hádegi. En ríkisvaldið í Kænugarði er veikt. Óvinurinn, Pútín, sameinar í stríði en sundrar í friði. Í ofanálag vill Nató að stríðið haldi áfram til að veikja rússneska herinn. Þegar margir í senn heimta blóð er langt í friðinn.

Stjórninni í Kænugarði eru allar bjargir bannaðar að semja frið. Rússum er fullkunnugt um þráteflið. Þeir segjast í Úkraínu berjast við síðnýlendustefnu Nató. Þann 9. maí gæti Pútín tekið af silkihanskann og gefið út stríðsyfirlýsingu. Við það yrði heimsfriðurinn í hættu. Hvorki meira né minna.

 


mbl.is Hvetja Pútín til að lýsa yfir stríði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband