Laugardagur, 2. apríl 2022
Blaðamenn verðlauna glæpi
Þrír blaðamenn Stundarinnar og Kjarnans sem fengu verðlaun Blaðamannafélags Íslands eru sakborningar í lögreglurannsókn. Verðlaunin fengu þeir fyrir fréttir sem aflað var með glæpum, byrlun og gagnastuldi.
Arnar Þór Ingólfsson og Þórður Snær Júlíusson, blaðamenn á Kjarnanum, og Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Málsgögn, þau sem hafa verið gerð opinber, hníga öll í þá átt að skipulag glæpsins og miðstöð framkvæmdar hafi verið á RÚV. Þóra Arnórsdóttir yfirmaður á RÚV er sakborningur ásamt þremenningunum. Helgi Seljan og Rakel Þorbergsdóttir eru að líkindum einnig grunuð þótti ekki sé það staðfest.
Ástæðan fyrir því að Blaðamannafélag Íslands ákvað að veita sakborningum í glæparannsókn verðlaun er borðleggjandi. Aðalsteinn er varaformaður félagsins og formaðurinn er Sigríður Dögg Auðunsdóttir fréttamaður á RÚV. Forystan virkjaði einfaldlega stjórn og trúnaðarmenn til að leggjast á árarnar með þeim grunuðu. Tilgangurinn er að bæta vígstöðuna í umræðunni.
Ef þorri blaðamanna landsins leggjast á eitt að sýna glæpagengið á RSK-miðlum sem saklaus fórnarlömb er búin til ímynd. En sú ímynd á sér enga stoð í veruleikanum. Það var framinn tvöfaldur glæpur, byrlun og gangastuldur. Afrakstur glæpsins birtist í Kjarnanum og Stundinni.
Eitt af hlutverkum fjölmiðla er að bregða ljósi á það sem miður fer í samfélaginu. Blaðamenn á Íslandi telja aftur brýnast að breiða yfir glæpi, sýna afbrotamenn sem fermingarbörn er ekki mega vamm sitt vita.
Fjórir sitja í dómnefnd blaðamannaverðlauna. Þeir veita verðlaunin fyrir hönd allra félagsmanna Blaðamannafélags Íslands. Hvorki heyrist hósti né stuna frá blaðamönnum sem virðast ætla að láta yfir sig ganga að blaðamannastéttin verðlauni glæpaiðju.
Fjölmiðlar skipaðir íslenskum blaðamönnum verða einskins nýtir að fjalla um glæpi og afbrot í samfélaginu. Fyrirfram er sakleysi grunaðra glæpamanna ákveðið og látið eins og enginn glæpur hafi verið framinn - þótt fórnarlambið hafi verið við dauðans dyr á gjörgæslu.
Blaðamannafélagið valdi 1. apríl til að verðlauna þrjá félagsmenn grunaða um glæp. Kannski er dagsetningin til marks um að ekki eigi að taka atburðinn alvarlega. Hvort sem málið er þannig vaxið eður ei liggur fyrir að 1. apríl 2022 markar skil í sögu stéttarfélags blaðamanna. Aldrei hefur nokkur starfsstétt gengið jafn hreint til verks að lýsa sig óalandi og óferjandi í siðuðu samfélagi.
![]() |
Ásdís Ásgeirsdóttir með viðtal ársins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)