Þriðjudagur, 19. apríl 2022
Biden óttast tap í Úkraínu
Biden forseti vill ekki að Úkraína verði Bandaríkjunum annað Afganistan. Hann hafnar ítrekuðu heimboði Selenskí Úkraínuforseta. Ef Úkraínuher tapar á vígvellinum í Donbass er Kænugarður kominn í stöðu Kabúl. Stjórn Biden þolir ekki aðra niðurlægingu og heldur sig fjarri vettvangi en sendir vígtól sem sárabætur.
Með heimsókn Biden til Úkraínu færðust Bandaríkin nær beinni aðild að stríðinu. Þá væru tvö kjarnorkuveldi komin í slagsmál. Úkraína er ekki spurning um líf og dauða fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna, en er það fyrir Rússa.
Ef Úkraínumenn væru um það bil að sigra Rússa, eins og sumir vilja vera láta, myndi Biden óðara heimsækja Selenskí og taka þátt í sigurhátíðinni. En Úkraínumenn eru að tapa. Þeim er haldið gangandi með hergögnum frá Nató en það gengur á mannskapinn. Aðeins bandarískir hermenn geta fyllt í skörðin. Þeir eru ekki á leiðinni.
Úkraína er ekki þjóðríki í neinum venjulegum skilningi, sagði bandaríski Princetonsagnfræðingurinn Stephen Cohen í fyrirlestri 2015. Á 25 mín. útskýrir hann hvers vegna Úkraínustríðið átti aldrei að verða.
Stríðið í Úkraínu er borgarastríð, segir Cohen, og vísar til átakanna fyrir sjö árum. Seinni hálfleikur hófst 24. febrúar 2022. Í löngu leikhléi, sjö ár, mistókst að semja um að Úkraína yrði hlutlaust sambandsríki utan hernaðarbandalaga.
Vesturlandavæðing Austur-Evrópu, sem hófst með falli Sovétríkjanna fyrir 30 árum, stöðvast í Úkraínu. Í sjö ár stóð samningaleiðin andstæðum fylkingum opin. Vígaferli taka við þegar menn nenna ekki málamiðlun.
![]() |
Biden ekki á leið til Kænugarðs á næstunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)