Mánudagur, 21. mars 2022
Úkraína: ragnarök eða samningar
Rússar og Úkraínumenn hittast reglulega á friðarfundum. En stríðið heldur áfram. Báðir aðilar eru sannfærðir um að stríðinu ljúki með samningum en ekki með uppgjöf Úkraínu eða afturköllun rússneskra herja.
Hvers vegna ekki vopnahlé strax meðan gengið er frá smáatriðum samninga?
Jú, hvor um sig stríðsaðilinn telur sig hagnast á framhaldi átaka. Úkraínumenn gera Rússa stríðsþreytta og stóla á frekari aðstoð frá vesturlöndum í formi vopna, vista og einangrunar Rússlands. Rússar meta stöðuna þannig að með stærra úkraínskt land undir fótum batni samningsstaðan.
Kaldrifjaðir útreikningar í Kænugarði og Moskvu gefa sömu niðurstöðu. Að hagur sé í áframhaldandi átökum. Á meðan deyr fólk, bæði borgarar og hermenn.
Upphaf stríðsins má rekja til þess að Úkraína vildi verða Nató-ríki. Rússar sögðu það ógna tilvist sinni að nær öll vesturlandamærin væru í óvinveittu hernaðarbandalagi. Selenskí forseti hefur gefið það út að Nató-aðild sé ekki á dagskrá að sinni. Er það nóg?
Nei, ,,að sinni" getur þýtt næstu misserin. Deilan um aðild að Nató hefur staðið yfir frá 2008, í 14 ár. Rússar munu vilja frekari tryggingu fyrir að um fyrirsjáanlega framtíð verði Úkraína ekki Nató-ríki. Það fæli í sér stjórnarskrárbreytingar sem óvíst er að Selenskí forseti fái í gegn á þingi.
Stjórnarbylting var gerð í Úkraínu 2014. Tvísýnt er að stjórnmálakerfið sé í stakk búið að gera friðarsamninga. Frétt, sem ekki fór hátt, um morð á úkraínskum samningamanni er vísbending um að ekki öll dýrin í Kænugarðsskóginum séu bestu vinir. Selenskí forseti hefur bannað alla stjórnmálaflokka í landinu. Ekki er það til marks um samstöðu þegar nauðsyn þykir að banna þá sem eru ósammála valdhöfum.
Úkraína sækist enn eftir vernd Bandaríkjanna og Nató. John Mearsheimer, þungavigtarmaður í alþjóðastjórnmálum, segir að það sé leiðin til glötunar. Úkraína er ekki og verður ekki hluti þjóðaröryggis Bandaríkjanna. Washington mun ekki hætta á kjarnorkustríð við Rússa til að hjálpa Úkraínu. Selenskí forseti ræðir þriðju heimsstyrjöld í samhengi við Úkraínu. Það óskhyggja.
Ráðandi öfl í Úkraínu veðjuðu á að Bandaríkin myndu styðja harðlínustefnu gegn Rússum. Það virtist gera gagn 2014. Síðan eru átta ár. Á þeim tíma tapa Bandaríkin borgarastríðinu í Sýrlandi og voru niðurlægð í Afganistan sl. sumar. Jafnt og þétt eru Bandaríkin að draga sig inn í skel. Útlensku stríðin svara ekki kostnaði, er sagt í Washington.
Stjórnin í Kænugarði veðjar á þriðju heimsstyrjöldina. Það er til marks um örvæntingu. (Sem er, innan sviga, óskiljanlegt. Vestrænir fjölmiðlar eru uppfullir af fréttum um stórkostlegan árangur gegn Rússum). Nær væri að vinna með illskásta kostinn í stöðunni fremur en að vonast eftir ragnarökum.
![]() |
Heimsstyrjöld ef friðarviðræður misheppnast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |