Trump kennt um Úkraínustríðið

Trump ber ábyrgð á Úkraínustríðinu, segir í fréttaskýringu í frjálslyndri bandarískri útgáfu, New York Review of Books. Ljósmynd af Selenskí forseta Úkraínu og Trump, tekin 2019, er í raun sjálfstæð fréttaskýring. Selenskí með skelfingarsvip er segir: úff, allt er glatað, Kaninn ætlar að yfirgefa okkur.

Í raun hlaut að koma að því að frjálslyndir kenndu Trump um ófarirnar í Úkraínu. Forsetatíð glókolls, sem lauk með hvelli í byrjun árs 2021, markaði endalok frjálslyndar alþjóðahyggju. Trump var sakaður um að hafa þegið forsetaembættið frá Pútín í Rússíá. Samkvæmt samsæriskenningunni skrifaði Pútín nokkrar feisbúkkfærslur og Ameríkanar flykktust á kjörstað að kjósa skjólstæðing Kremlarbónda. Frjálslynda alþjóðaelítan kokgleypti kenningunni. Hún trúir líka eins og nýju neti að veðurfar sé manngert og að kóvit kom frá plánetunni Mars en ekki Kína. Vestræna valdaelítan lifir seinni árin æ meira í heimi ímyndunar samfélagsmiðla en hörðum heimi staðreynda. Stjórnmálamenning sem karpar um hvort kynin séu þrjú, fimm eða seytján er komin langt fram yfir síðasta söludag. 

En, svona í alvöru talað, þá ber Bandaríkjaforseti ábyrgð á Úkraínustríðinu. Bara ekki Trump. Þegar arftaki glókolls, Biden, beið niðurlægjandi ósigur í Kabúl í Afganistan 15. ágúst í fyrra, sagði uppgjöfin Pútín forseta að Bandaríkin myndu hvorki hreyfa legg né lið í Kænugarði í Úkraínu. Það gekk eftir.

Í fréttaskýringu þýsku útgáfunnar Die Welt segir að Pútín hafi fyrir innrásina haldið spilunum þétt að sér. Aðeins þrem dögum fyrir árás lét forsetinn þau boð út ganga meðal embættismannaveldisins að Úkraínumálið yrði leyst með hervaldi. Þetta er trúlegt. Ef rússneska elítan hefði vitað með lengri fyrirvara um yfirvofandi hernað hefði t.d. Roman Abramaovich selt fótboltaliðið sitt í London í tæka tíð. Nú fæst Chelsea fyrir slikk. 

Á hinn bóginn skipuleggur enginn innrás með þriggja daga fyrirvara. Rússar hafa undirbúið aðgerðirnar hið minnsta frá 2014 þegar elítan í Kænugarði lagðist á sveif með ESB og Nató og gaf Rússum langt nef.

Stjórnvöld í Kænugarði máttu vita, þegar á stjórnarárum Trump, að Bandaríkin og þar með vestrið væru í þann veginn að gefa upp á bátinn útþenslupólitíkina eftir kalda stríðið. Uppgjöf Bandaríkjanna, undir forystu Biden, í Afganistan í fyrrasumar var ótvírætt merki um vatnaskil. Á liðnum áratug heyktist vestrið á Írak og Sýrlandi - sem fékk aðstoð Rússa.

Selenskí forseti, rómuð hetja síðustu daga, gefur út yfirlýsingu í hvert sinn sem Rússar taka stærri landsvæði að Úkraína sé um það bil að vinna stríðið. Jafnhliða biður hann um friðarsamninga - sem hann myndi vitanlega ekki gera á sigurbraut - en getur ekkert boðið Rússum. Sennilega er Selenski ekki með umboð frá bakhjörlum sínum til að semja.

Sahra Wagenknecht er þýskur stjórnmálamaður og starfaði sennilega í Vinstri grænum ef hún væri íslensk. Hún segir í viðtali: Allir vita að Úkraína getur ekki unnið stríðið. Eina leiðin til að stöðva Rússa, og blóðbaðið, er að semja. Og til að ná samningum þarf að bjóða Rússum eitthvað.

Wagenknecht segir það sem alþjóð vissi um leið og fyrsta skotinu var hleypt af 24. febrúar síðast liðinn. Hvað eru stjórnvöld í Kænugarði að pæla?

Jú, það er augljóst. Selenskí forseti og hirð hans vonast eftir þriðju heimsstyrjöldinni. Hún gæti sem best byrjað með að Nató tryggði lofthelgina.

Aðeins beint stríð Bandaríkjanna og Rússlands getur bjargað Úkraínu í heilu lagi. En heimurinn verður ekki sprengdur aftur á steinöld til að Selenskí haldi embætti. Ábyggilega er hann góður gaur. En sumt fá ekki einu sinni góðmenni þótt hugur standi til. 

Óöldinni í Úkraínu linnir aðeins með friðarsamningum. Stjórnvöld í Kænugarði verða að semja um rússnenskan frið. Í stað þess að framselja úkraínskt fullveldi til Brussel verður Moskva áfangastaðurinn. Harðir kostir vissulega en þeir einu raunhæfu í stöðunni.  


mbl.is Lofthelgi verður að tryggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. mars 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband